17.10.1935
Neðri deild: 50. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

119. mál, kjötmat o.fl.

Magnús Torfason:

Ég kveð mér ekki hljóðs sakir þess, að ég mæli mér að leggja stein í götu þessa frv., heldur þvert á móti til þess að ýta undir það, að frv. verði fært til réttari vegar. Því miður sé ég ekki, að hæstv. landbrh. sé viðstaddur, og ég kem ekki heldur auga á formann landbn. En ég vænti þess, að hér séu einhverjir inni af mönnum, sem skipa landbn.

Það er við síðasta lið gr., sem ég vildi gera aths. Þar stendur: „Einnig skulu þeir hafa ferðakostnað eftir sanngjörnum reikningi, er ráðuneytið úrskurðar.“ — Eftir réttu máli virðist mér, að í þessu ætti það að liggja, að því aðeins, að yfirkjötmatsmenn sendi sanngjarnan reikning, fái þeir hann borgaðan. Þetta er að ég hygg nýmæli í l. Það mun yfirleitt ekki standa þannig orðað, heldur aðeins, að menn fái ferðakostnað greiddan samkv. reikningi, er ráðuneytið úrskurðar. Og hvernig sem menn vilja skilja þetta, þá held ég, að engin ástæða sé til annars en reikningarnir verði sanngjarnir, þegar þeir eru úrskurðaðir. Ef það væri ekki, þá er verið að drótta því að landbúnaðarráðuneytinu, að reikningar séu ósanngjarnir eftir að þeir hafa verið úrskurðaðir. Ég segi þetta ekki sérstaklega með tilliti til þessa ráðuneytis, því þetta nær til allra ráðuneyta, sem eiga að úrskurða þessa reikninga. Þess vegna hygg ég, að réttast væri að sleppa orðinu „sanngjörnum“ úr og fari bezt á því. — Í öðru lagi stendur hér, að yfirkjötmatsmenn eigi að fá 4 kr. fyrir fæði og húsnæði fyrir dag hvern, sem þeir eru frá heimilum sínum vegna yfirmatsins. Ég tel þetta ekki fullnægjandi. Það er ekki unnt að fá fæði og húsnæði, a. m. k. ekki á gististað, fyrir 4 kr. á dag og ég býst við, að engum sæmilegum manni, sem er á ferðalagi fyrir það opinbera, detti í hug að rétta húsráðanda 4 kr. fyrir næturgistingu og mat kvölds og morgna. Yfirleitt hélt ég, að hugsunin með þessu væri sú, að yfirmatsmennirnir fengju uppborið kostnað sinn af ferðalögum, og get ég ekki annað séð en að það sé sanngjarnt og eigi svo að vera. En ef þeir fá ekki uppborið kostnað sinn, þá þýðir það vitanlega, að það geti orðið til þess að draga úr ferðalögum yfirkjötmatsmannanna, en það mun ekki vera hugsunin, að þeir ræktu þessi erindi sín slælega, heldur þvert á móti, að þeir gegndu slíkum erindum með fullri alúð og samvizkusemi á allan hátt.

Ég hefi ekki hugsað mér að koma fram með neina brtt. að svo stöddu, því ég hefi talið réttast að landbn. taki þetta til athugunar sjálf og leiðrétti það.