05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

119. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson) [óyfirl.]:

Mál það, sem hér liggur fyrir, er ekkert stórmál, og ætla ég ekki að fara út í neinar kappræður um það. Hv. 2. þm. Rang. helt því fram, að það væri engin trygging fyrir því, að betra kjötmat fengist með þeirri tilhögun, sem stungið er upp á í frv., heldur en þeirri, sem nú er. Það er e. t. v. ekki beint hægt að segja, að það sé full trygging fyrir því, að kjötmatið verði betra, en líkur finnst mér til, að svo verði. Mér virðist meiri trygging fyrir því með því að láta reglulega yfirkjötmatsmenn framkvæma þetta verk heldur en svokallaðan aðstoðarmann, sem framkvæmir sitt verk á ábyrgð þessa eina yfirkjötmatsmanns. Mér finnst það meiri trygging, að svo miklu leyti sem þrír menn eru meiri trygging heldur en einn maður. Hitt finnst mér veigameiri ástæða, sem hv. 2. þm. Rang. nefndi, að það gæti e. t. v. orðið minna samræmi í matinu með þessu móti heldur en ef einn maður ætti að sjá um það. Þessi ástæða gæti verið réttmæt í alla staði, ef reynslan hefði sýnt, eða líkur væru til, að einn maður kæmist yfir að hafa eftirlitið á öllu landinu. En nú hefir reynslan sýnt, að þó að liðin séu a. m. k. tvo haust síðan þessi l. voru sett, þá hefir kjötmatsmaður ekki komizt yfir að líta eftir nema nokkrum hluta af landinu. Við getum líka sagt okkur það sjálfir, að það er ómögulegt fyrir einn mann á einu hausti að líta eftir á öllu landinu, þar sem sláturtíðin stendur svo stutt yfir. Það mætti e. t. v. segja sem svo, að það mætti skipta landinu og bari ekki nauðsyn til að fara um allt landið á einu hausti. En það geta orðið breytingar; bæði getur orðið skipt um menn og ýmsar aðrar breyt. orðið (MG: Menn geta líka breytt skoðun.), svo að ég veit ekki, hvort meiri trygging fyrir samræmi fæst með því móti, að einn maður eigi að gera þetta á svo og svo mörgum árum heldur en að mennirnir væru þrír. Menn geta breytt skoðun sinni, sagði hv. 1. þm. Skagf., en menn eru dauðlegir, og það getur komið fyrir, að kjötmatsmenn deyi eins og aðrir. Út af dylgjum ýmsra hv. dm. skal ég taka það fram, að mér er alls ókunnugt um það, hvaða pólitíska skoðun núv. yfirkjötmatsmaður hefir eða hverjum flokki hann fylgir, og fyrir mig skiptir það heldur engu máli. En ég vil benda á, að landbn. Nd. flutti þetta frv., og voru sjálfstæðismenn í n. með í því að flytja það. Mér þykir því ólíklegt, að hv. sjálfstæðismenn ætli nú að gera það að flokksmáli að risa gegn þessu.