05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

119. mál, kjötmat o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er þessi brtt., sem fyrir liggur og er borin fram eftir beiðni landbúnaðarráðuneytisins, sem hefir mætt talsverðri mótspyrnu. Mér virðist sú mótspyrna byggjast að miklu leyti á misskilningi á þessu máli. Ég skal taka það fram, að þessi breyt. er ekki gerð sem pólitísk árás á þann mann, sem nú er yfirkjötmatsmaður, og ég get fullvissað hv. þdm. um það, að hann myndi verða einn af þessum þremur yfirmatsmönnum, sem eiga að koma í stað þessa eina. En ástæðurnar til þess, að þessar brtt. eru bornar fram, eru þær, að undanfarin þrjú ár hefir verið fenginn frá Englandi sérfróður maður af S. Í. S., sem hefir alltaf fylgzt með geymslu á kjöti hér og frystingu, af því að það hefir reynzt dálítið erfitt að halda kjötinu óskemmdu. Hann hefir jafnframt reynt að ala upp menn í þau störf, sem eiga að taka við af störfum yfirkjötmatsmanns. Það er sem sagt samkv. bendingu frá honum, að þessi brtt. er fram borin. Hann segist álíta, að nauðsynlegt sé, að a. m. k. þrír menn, nægilega fróðir, væru til þess að fara um sæði, sem væru hæfilega stór, til þess að líta eftir hjá matsmönnum og leiðbeina um geymslu kjötsins. Í raun og veru koma þessir þrír menn í stað yfirmatsmannsins og Englendingsins, sem nú þrjú síðustu haustin hefir komið hingað til landsins til þess að líta eftir matinu og hvernig frystihús væru rekin hér á landi. Mér finnst eðlilegt, þar sem okkar aðalmarkaður fyrir fryst kjöt er í Englandi, að tillit sé tekið til þess manns, sem var fenginn til þess að leiðbeina frystihúsunum um, hvernig kjötgeymslunni yrði bezt hagað og til að hafa eftirlit með kjötmatinu, ekki sízt þegar þeir, sem starfa að þessu, hafa ásamt kaupfélagsstjórunum verið með í að senda áskorun til þingsins, þar sem það er tekið fram, að einmitt þetta fyrirkomulag sé öruggast, og byggja það á reynslu þriggja undanfarinna ára. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni.