05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

119. mál, kjötmat o.fl.

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að taka fram, að ég hefi ekki verið með neinar getsakir í þessu máli, og vísa því orðum hæstv. forsrh. algerlega frá mér. (Forsrh.: Þær komu annarsstaðar fram). Mér var kunnugt um, að maður frá Englandi hefir heimsótt frystihúsin undanfarin haust í þeim tilgangi að leiðbeina þeim með freðkjöt, frystingu á því og hvernig allur útbúnaður skyldi vera, svo að tryggt væri, þó að þessi maður gefi sínar upplýsingar, þá finnst mér það ekki raska neinu af því, sem hér hefir verið haldið fram, að til þess að skapa fullt samræmi í kjötmatinu, þá sé nauðsynlegt, að einn sé yfirmaður. Það mun reynast betur á hvaða fleytu sem er, að einn sé skipstjórinn, en ekki þrír, og til hans megi leita, ef ágreiningur verður. Og til þess að sem bezt samræmi fáist í kjötmatið, tel ég líklegt, að tryggasta leiðin verði, að einum manni sé falið að hafa á hendi samræmingu matsins hjá hinum matsmönnunum. Ég vil áskilja mér rétt til þess að flytja brtt. við 3. umr. í þessu efni.