05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

119. mál, kjötmat o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr., enda ættu upplýsingarnar, sem ég gaf áðan, að nægja. Það var aðeins þetta, sem hefir komið fram síðan, að það væri ekki meiri trygging, heldur síður, að hafa þrjá yfirmatsmenn heldur en einn, og að minna samræmi verði í starfinu, og hv. 10. landsk. nefndi sem rök, að betra væri, að einn skipstjóri væri á hverju skipi heldur en þrír. Menn mega vara sig á þannig löguðum líkingum, að það verði ekki frekar til þess að villa málin heldur en skýra, og svo er um þessa samlíkingu. Það er vitanlegt, að þessi eini kjötmatsmaður hefir ekki komizt yfir að fara á milli sláturhúsanna og hefir því ekki getað leiðbeint eins og skyldi, því að þótt hægt sé að ná til hans í síma, gerir það alls ekki sama gagn. Menn eru sammála um, að þeir ferðist á staðina. Yfirkjötmatsmaður kemst ekki yfir það verkefni, sem hann á að gegna.

Þá ætla ég að minnast á þau mótmæli, sem komu frá hv. 2. þm. Rang. Það er ekki hægt að neita því, að hann færði nokkur rök að því, að undirmatsmennirnir ættu að geta leyst þetta af hendi. Um þetta vil ég segja það, að tilætlunin er sú, að þeir menn, sem þetta starf eiga að hafa með höndum, hafi fengið sérmenntun, svo að þeir séu færir um að leysa það vel af hendi. Það á skv. þessu frv. að borga þeim betur og því krefjast meira starfs af þeim. Það hefir verið svo, að þeir hafa aðeins farið í eina yfirferð á ári. A. m. k. er það svo á Vestfjörðum, en þar þekki ég til þess, að það er farið í eina yfirreið á ári, og svo látið nægja að leita í síma til yfirmatsmannsins. En nú er gert ráð fyrir, að það verði meiri umferð um það svæði, sem hverjum er ætlað, og það á að borga þeim betur en áður. Ég býst við, að það geti orðið eins mikið samræmi í matinu og áður, og jafnvel meira. Ef það eru menn, sem hafa svipaða menntun, og þeir rækja þetta starf vel og samvizkusamlega, þá er vel hægt að búast við því, að fullkomið samræmi verði í matinu. Það er líka álit þeirra, sem til þekkja, að það verði meiri trygging fyrir því en nú, þegar yfirkjötmatsmaðurinn er einn.