07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

119. mál, kjötmat o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Um þessa brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 10. landsk., vil ég segja það, og í samræmi við það, sem ég hefi áður sagt um þetta mál, að ég sé ekki, að það sé nein bót, þó að einn af þeim mönnum, sem á að hafa kjötmatið með höndum — og ef tekst að velja verulega hæfa menn til þess — að einn þeirra heiti öðru nafni og fái 300 kr. meiri laun heldur en hinir. Það er ekki ólíklegt, að þetta sé að einhverju leyti miðað við þann mann, sem nú gegnir þessu starfi, en ég veit ekki, hvort honum er nokkur þægð í að vera potað þarna upp fyrir.

Ég held, að bezt sé að ganga frá málinu eins og tillögur liggja fyrir um það frá þeim mönnum, sem búnir eru að afla sér þekkingar á þessum málum á undanförnum árum, en það eru menn, sem fyrst og fremst af hálfu S. Í. S. og af hálfu kaupfélaganna hafa með frystingu og sölu kjöts að gera í samráði við þá sérfræðinga erlenda, sem þeir hafa fengið til þess að annast þetta. Í samráði við þessa menn var frv. samið, og vil ég þess vegna mælast til við hv. d., að hún treysti sér til þess að ganga frá málinu á þann hátt, sem þeirra till. liggja fyrir, en samþ. ekki brtt. hv. 10. landsk., sem ég sé ekki, að sé til neinna bóta, nema síður sé.