16.10.1935
Neðri deild: 49. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

111. mál, gelding húsdýra

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Frv. þetta hefir áður verið til umr. á þessu þingi, en mér þykir þó rétt að rifja efni þess upp að nokkru, ef hv. þm. skyldu vera farnir að ryðga í því.

Eins og kunnugt er, er það aðalefni frv. að lögbjóða, að framvegis skuli viðhöfð meiri mannúð við geldingu húsdýra en hingað til, en fram til þessa hefir sú athöfn fremur verið framkvæmd af heiðinni grimmd en í samræmi við upplýsingu og hugsunarhátt vorra tíma. Vitanlega hefir hugsunarleysi valdið mestu um það, hve meðferð húsdýra hefir verið óhæfileg í þessu efni.

Frv. sama efnis hefir áður legið fyrir þinginu, en ekki náð fram að ganga. Í því frv. var gert ráð fyrir að lögleiða svæfingu á undan geldingu. Í þessu frv. er hinsvegar gert ráð fyrir staðdeyfingu, sem talin er betri, hægari og ódýrari, og notkun nýtízku tanga. Frv. lögbýður staðdeyfingu á hinum eldri og þroskaðri húsdýrum, og sé bæði deyfingin og geldingin einungis framkvæmd af hæfum og vönum mönnum. Hin dýrin, sem yngri eru og óþroskaðri, séu gelt með Burdizzo-töngum, sem fróðir menn telja, að taki hinum eldri töngum langt fram og geri geldinguna kvalaminni. Ég vænti þess, að hv. þm. sjá sóma sinn í því að afgr. þetta mál fljótt og vel og koma því þar með í það horf, sem hæfir vorum tímum, upplýsingu þeirra og mannúðarhugmyndum.