16.10.1935
Neðri deild: 49. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

111. mál, gelding húsdýra

Páll Zophóníasson:

Ég var í minni hl. í landbn., er mál þetta lá þar fyrir, og fann ekki ástæðu til að samþ. frv. þetta. Vil ég því gera stutta grein fyrir afstöðu minni.

Þetta frv. er fyrst og fremst flutt sem dýraverndunarfrv. Þó mun það ekki ná til þeirra húsdýra, sem sæta verstri meðferð í þeim efnum, sem hér ræðir um, en það eru hundar og kettir. Ef mannúðin er aðaltilgangur frv. — og svo mun hafa átt að vera —, hefði verið sjálfsagt, að það hefði einnig náð til þessara dýra.

Í frv. er gert ráð fyrir staðdeyfingu. Ég álít, að mönnum hefði átt að vera það alveg í sjálfsvald sett, hvort þeir notuðu staðdeyfingu eða svæfingu, einkum vegna þess, að svæfing hefir verið notuð töluvert á síðari árum, og ýmsir því orðnir henni vanir.

Samkv. frv. eiga yngri dýr en ársgömul að geldast með Burdizzo-töngum. Af þessum töngum munu ekki vera til nema 60—70 á öllu landinu, og engar í sumum héruðum, og byrjuðu þær þó að flytjast hingað fyrir 17 árum. Það eru því meira en lítil innkaup, sem gera þyrfti á þessum töngum, ef þær ættu að verða svo almennar, að hægt verði að framfylgja lögunum.

En til þess að tryggja það, sem mun vera tilgangur frv., mannúðina í meðferð húsdýra að þessu leyti, skiptir það langmestu máli, að á vissum svæðum, í hverjum hreppi eða tveimur hreppum, sé tryggt, að til séu jafnan menn, sem kunna að gelda, sé það tryggt, kemst þetta mál í heppilegt horf smátt og smátt, og á þann hátt næðist betri árangur en með því að þröngva mönnum til að nota tæki, sem óvíða eru til, eða staðdeyfingu, sem fáir kunna. Aðalatriðið er það, að aðrir fáist ekki við geldingar en kunnáttumenn.