20.03.1935
Sameinað þing: 5. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

Minning látinna manna

forseti (JBald):

Kl. 1 í nótt andaðist að heimili sínu hér í bænum Jón Þorláksson, borgarstjóri Reykjavíkur.

Jón Þorláksson var fæddur í Vesturhópshólum 3. marz 1877, sonur Þorláks Þorlákssonar, bónda þar, og konu hans, Margrétar Jónsdóttur, prests Eiríkssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1897 með hærri einkunn en nokkur maður hefir hlotið þar fyrr og síðar, enda var hann afburðanámsmaður. Sex árum síðar, 1903, lauk hann prófi í mannvirkjafræði við Polyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn. Á árunum 1905—1917 var hann landsverkfræðingur, en einkaverkfræðingur allmörg ár þar á eftir, bæði áður en hann varð ráðherra og síðar, og rak jafnframt verzlun með byggingarefni. Hann varð fjármálaráðherra í 3. ráðuneyti Jóns Magnússonar, 1924, og jafnframt forsætisráðherra eftir dauða hans á miðju ári 1926. Frá ráðherrastörfum fékk hann lausn árið eftir, 1927. Í árslok 1932 var hann kosinn borgarstjóri í Rvík, og því starfi gegndi hann til dauðadags.

Á Alþingi átti hann sæti á þingunum 1921—1933, var þingmaður Reykvíkinga 1921—1926 og landskjörinn þingmaður 1927—1933. Þá féll niður umboð landskjörinna þingmanna, og hann bauð sig ekki aftur fram til þings. Hann gegndi og ýmsum öðrum vandasömum störfum í almenningsþarfir, var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1906—1908 og 1910—1922, átti sæti í milliþinganefnd í kjördæmamálinu 1931—1932 og í stjórn Eimskipafelags Íslands frá 1917. Hann var formaður Íhaldsfl. og síðar Sjálfstfl. frá 1924—1934, er hann sagði af sér því starfi.

Flestum mun bera saman um, hverjum stjórnmálaflokki, sem þeir fylgja, að með Jóni Þorlákssyni sé í valinn hniginn afburða maður að mörgu leyti. Menn eru sammála um, að hann hafi verið miklum gáfum gæddur, jafnvel flestum framar af samtíðarmönnum sínum, en hitt skiptir ekki minna máli, að á bak við skarpa hugsun og ágæta þekkingu stóð óvenjulegt þrek og skapfesta, sem stundum var svo ósveigjanleg, að menn styggðust við, enda var honum tamara að halda máli sínu til streitu og segja hverjum sem var skoðun síns afdráttarlaust heldur en að leita að millivegum og laða menn að sér með fortölum. Þess mun lengi verða minnzt, hve prýðilega hann var máli farinn á þingi og mannfundum, skýr í hugsun og rökfastur og hélt þar vel á málum sínum. Hann lét einkum fjármálin til sín taka, og samherjum hans þótti þar ekki ráð ráðið nema hans væri leitað. Sá flokkur, sem nú ræður bæjarmálum Reykjavíkur, telur sig hafa mikið afhroð goldið við fráfall þessa manns og að skarð hans muni verða vandfyllt. Og um hitt munu flestir á einu máli, að Jón Þorláksson hafi verið einn af merkustu stjórnmálamönnum landsins á síðari árum.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa látna merkismanns virðingu sína með því að risa úr sætum sínum.

[Allir þm. risu úr sætum.]