09.11.1935
Neðri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Sjútvn. hefir ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, og höfum við í minni hl., hv. þm. Vestm. og ég lagt til, að frv. yrði samþ. með einni breyt., við 2. gr. þess, sem er leiðrétting, sem sé að í staðinn fyrir ártalið 1934 komi 1935. Hinsvegar leggur meiri hl. n. til, að frv. verði fellt, og eins og hv. þm. hafa heyrt, þá virðast það vera aðalrökin, sem hv. frsm. meiri hl. ber fram fyrir því að fella beri frv., að óviðkunnanlegt sé fyrir þingið að fella nú úr gildi löggjöf, sem það hafi samþ. í fyrra. Ég get ekki fallizt á, að þetta út af fyrir sig séu nokkur rök í málinu, því vitanlegt er það, að ef þingið við nánari íhugun kemst að raun um, að það hefir sett löggjöf, sem ekki er í alla staði rétt, þá er sjálfsagt að breyta henni þegar í stað, þegar tækifæri gefst. Og það eru svo sem engin einsdæmi, að þingið hafi breytt löggjöf með eins árs millibili, þegar komið hefir í ljós, að þess hefir verið þörf. (BÁ: Á þessu þingi hefir verið breytt l. frá því á þinginu í vor). Hv. þm. Mýr. upplýsir, að það hafi jafnvel verið breytt l. á sama þingi sem þau voru samþ., og styrkir það enn mitt mál, hversu mikil fjarstæða þessi rök hv. frsm. meiri hl. eru.

Annars er það svo, eins og við í minni hl. höfum gert grein fyrir í okkar nál., að það, hvað þessi viðauki við l. frá 1872 gekk greiðlega í gegnum þingið í fyrra, stafaði af því, að málið hafði legið fyrir fiskiþinginu, og það mun hafa mælt með því, að breyt. gengi fram hér á þingi.

Við í minni hl. höfum gert grein fyrir því í okkar nál., hvers vegna við teljum, að ákvæði frá í fyrra eigi að falla niður, og það er fyrst og fremst vegna þess, að með því ákvæði er með óvenjulegu móti gengið á eignarrétt þeirra manna, sem hér ræðir um. Hér er sem sagt um það að raða, hvort landeigendur, sem eiga land að sjó, þar sem síld og ufsi veiðist með nót, eigi að fá landshlut af því, sem veiðist í þeirra netlögum. Það er skýrt tekið fram bæði í Jónsbók og konunglegri tilsk. um þau efni frá því snemma á 19. öld, að yfir netlögum, þ. e. a. s. 60 faðma frá landi, hafi menn samskonar eignarrétt eins og yfir landinu sjálfu. Og það er sérstaklega tekið fram í þessari tilsk., að veiði öll í netlögum sé eign landeiganda. Tilsk. um síldar- og ufsaveiði frá 1872 gerir undanþágu frá þessu. Þar er dregið úr þessum rétti landeiganda yfir þessari eign sinni, þannig, að ef sérstaklega stendur á, þá sé heimilt að veiða með nót í netlögum annars manns, ef goldin er landshlutur, enda liggur það í augum uppi, að þegar mönnum er leyft að ganga á eignir annars manns, þá gjaldi þeir fyrir það einhverjar bætur.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa lesið þessa tilsk. frá 1872 um síldar- og ufsaveiði með nót, en ég vil skýra frá því, að þar stendur m. a., að þeim, sem fara með slíka nót inn fyrir netlög landeiganda, sé heimilt að taka upp net, og liggur það í augum uppi, að ekki nær nokkurri átt, að heimilt sé að gera slíkan usla án þess að ákveðið sé í l., að bætur komi fyrir. Og þess vegna teljum við í minni hl. n. sjálfsagt, að þingið breyti þessu ákvæði, sem það setti í fyrra að lítt athuguðu máli, og fari að ráðum þess mæta manns, sem sagði, að skylt væri að hafa það heldur, sem sannara reyndist.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hv. 6. þm. Reykv. sem frsm. meiri hl. n. gerist forgöngumaður fyrir því, að gengið sé á eignarrétt annara. Þessi hv. þm. hefir þrásinnis við öll möguleg og ómöguleg tækifæri lýst því yfir, hvað honum væri annt um eignarréttinn, og kemur það því undarlega fyrir, að hann skuli gerast forgöngumaður þeirra, sem vilja brjóta niður eignarrétt manna.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vænti þess, að meiri hl. hv. d. fallist á álit okkar hv. þm. Vestm. og samþ. frv. eins og það liggur fyrir með þeirri breyt., sem við höfum lagt til.