22.10.1935
Neðri deild: 54. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

101. mál, síldar- og ufsaveiði

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði, að það sæti illa á mér að vilja ekki virða eignarréttinn, þá vil ég taka það fram, að ég veit ekki til, að það sé viðurkenndur eignarréttur á fiski, síld og öðru, áður en dýrin eru veidd eða orðin föst við eitthvert veiðarfæri, því að eignarrétturinn er bundinn við forráðarétt manna yfir veiðinni. Annað mál er það, að taka fisk í netlögum, þegar það kemur ekki í bága við veiði manns, sem land á að sjó. Það er bert, að 4% landshlutur eftir gömlu tilsk. er miðaður við endurgjald fyrir not af landi annars manns, setja upp skip o. fl., en ég tel ekki, að gengið sé á eignaréttinn, þó að tekinn sé fiskur á göngu fyrir landi annars manns.

Hvað viðvíkur því, sem áður var rokstutt í þessu máli, þá vil ég taka upp nokkrar línur úr rökstuðningi þess manns, er hafði framsögu í málinu í Ed. í fyrra. Hann segir fyrst, að frv. sé flutt að tilhlutun Fiskifél., og í grg. eru ýtarlega tilgreind tildrögin að frv., og um veiðiaðferðirnar segir svo, er ég vil lesa með leyfi hæstv. forseta: „Veiðiaðferð þessari er þannig háttað, að það eru tekin mörg köst á ýmsum stöðum, og því ógerningur að halda veiðinni aðskildri, sem veiðist fyrir hverri landareign. Það eru erfiðleikarnir á þessu, sem munu vera aðalástæðan fyrir því, að frv. þetta er komið fram, frekar en hitt, að sjómenn telji það stóra kvöð að greiða 4% af veiðinni í landshlut. Hér er ekki heldur um það að ræða, að gengið sé á hlut landeigenda, því að veiðiaðferð þessi var ekki kunn, þegar tilskipunin var sett 1872“. Og svo endar hann á því að leggja til, að frv. verði samþ.

Ég vil nú ennfremur taka fram, að á síðasta þingi var frv. samþ. hér í hv-. d. með shlj. atkv. Enginn greiddi atkv. á móti því. Og því er mér ekki ljóst, hvernig hv. flm. getur gert sér von um, að frv. nákvæmlega gagnstætt því, sem samþ. var í þessari hv. d. á síðasta þingi, nái hér fram að ganga.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, og ég er ekki á móti því, að rétt væri að hafa það, sem sannara reyndist. Ég er ekki heldur að setja út á það, að menn skipti um skoðun, og er sammála því, að leiðrétt sé, ef gert er rangt í einhverju máli og annað sannara kemur í ljós. En hv. þm. hefir hér ekki bent á eitt atriði, er komið hafi í ljós síðan í fyrra, er hnekki réttmæti þeirrar lagasetningar. Ef hv. þm. á einhver slík rök í fórum sínum, þá ætti hann ekki að liggja á þeim. Ég skora á hann að leiða í ljós einhver slík rök, sem komið hafi fram síðan í fyrra. Ég hygg þau muni ekki vera komin fram.