18.10.1935
Neðri deild: 51. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

Aldarafmæli Tryggva Gunnarssonar

forseti (JörB):

Á þessum degi fyrir hundrað árum fæddist Tryggvi Gunnarsson bankastjóri og alþingismaður, og þykir mér hlýða, að Alþingi minnist þessa þjóðnýta merkismanns við þetta tækifæri, þó að slíkt sé raunar eigi venja hér í þinginu, að minnast manna á aldarafmæli þeirra, en þessi maður er að því leyti nákomnari þinginu en allir aðrir, að hann hvílir einn manna í heimagarði Alþingis, þeim reit, sem hann gróðursetti og hlúði að með eigin höndum.

Það er ekki ætlun mín að telja hér upp hin mörgu og mikilsverðu þjóðnytjastörf Tryggva Gunnarssonar. Ég vil hér aðeins taka mér í munn þau orð, sem þáv. aldursforseti þingsins mælti til minningar um hann á Alþingi 1918, ári siðar en hann lézt:

„Aðaleinkenni hans voru óbilandi starfsþrek og einlægur áhugi í að vinna öðrum gagn, frábær ósérplægni og innileg samúð með öllu því, sem lífsanda dregur, jafnt mönnum sem dýrum og jurtum. Fyrir þessara mannkosta sakir mun minning hans lengi í heiðri hjá íslenzkri þjóð.“

Ég vil biðja hv. þdm. að rísa úr sætum sínum minningu Tryggva Gunnarssonar til virðingar. [Allir þdm. stóðu upp.]