29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Finnur Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að leiða þessar umr. hjá mér, og mun gera það eftir því sem unnt er. Þó vil ég drepa á nokkur veigamestu atriðin í þessu máli. Hv. þm. Ak. hafði það eftir hv. 1. landsk., að þessi gjöld, sem hér um ræðir, ætti að leggja á eftir efnum og ástæðum. ég hefi ekki heyrt hv. 1. landsk. segja þetta, og held ég því, að það sé misskilningur hjá hv. þm. Ak., að hv. 1. landsk. hafi sagt nokkuð í þá átt. Annað mál er það, að fyrir liggur yfirlýsing um það, að þessi skattstigi eigi að notast til þess að leggja á hús nokkuð eftir því til hvers þau eru notuð.

Nú er það kunnugt, að þess eru nokkur fordæmi, að skattstiginn sé nokkuð tilfæranlegur. Ég er því undrandi yfir því, að þeir hv. þm. Reykv., sem talað hafa í þessu máli, skuli ekki geta áttað sig á jafneinföldum hlut og því, að hér er ekkert nýtt á ferðinni í raun og veru. Í lögum um vatnsskatt í Rvík segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„… Upphæð skattgjaldsins alls ákveður bæjarstj., en hún má eigi fara fram úr 5‰ (fimm af þúsundi) af brunabótavirðingu húseigna, er skatti þessum eiga að svara. Skatturinn skal lagður á hinar einstöku húseignir eftir gjaldskrá, með flokkun eftir hæð virðingarverðs og tölu íbúða í húsunum, og má eigi nema meira en 6‰ af brunabótavirðingu á neinni húseign ...“ .

M. ö. o. þarna er fordæmi um vatnsskatt, sem á að jafna niður eftir virðingarverði og eftir tölu íbúða í húsinu. En nú hefir mér verið sagt, að þetta sé þannig „praktiserað“, að ef um mjög stórt hús er að ræða, sem aðeins ein fjölskylda býr í, þá lendi það hús í ódýrasta flokki.

Meiri hl. bæjarstj. Ísafjarðar ætlar að hafa skattinn hæstan á dýrustu húsunum, sem fáir menn búa í. Ég skil vel, að þeim, sem leggja vilja hæstan skatt á fátæklingana, eins og gert er í Rvík, þyki þetta slæmt áform hjá meiri hl. bæjarstj. Ég hefi heyrt, að sumum þætti þessi skattstigi nokkuð víður. En hvað segir hv. þm. Ak. t. d. um lóðagjöld á Akureyri, sem ákveðin eru frá 1 kr. af þús. upp í 2 kr. af þús.? Er það ekki nokkuð víður skattur? Hvers vegna kemur hv. þm. ekki með till. um breyt. á þessu, ef honum finnst bæjarstj. Akureyrar hafa misnotað þetta? Í rauninni er ekkert nýtt í þessum fasteignamatslögum; þvert á móti eru þau nokkuð mikið sniðin eftir lögum, sem áður voru til.

Mér heyrðist á hv. 8. landsk., að hann væri að beina því til hæstv. forseta, að hann vísaði þessu máli frá, vegna þess að í frv. væru ákvæði, sem brytu í bága við gildandi lög, án þess að tekið vari fram, að þau væru felld niður með frv. Hann tiltók sérstaklega eitt atriði, sem hann sagði, að kæmi í bága við gildandi lög. Það er ákvæðið um, að fasteignagjald ásamt dráttarvöxtum hvíli sem lögveð á viðkomandi fasteign í tvö ár. Hv. 8. landsk. breiddi mikið úr sér með lögþekkingu sinni, eins og hann er vanur og eins og þetta væri einsdæmi, en samt væri æskilegt, að þessi lögfróði maður kynnti sér lögin, sem um þetta gilda hér í Rvík. Ákvæðið um það, að fasteignagjald hvíli sem lögveð á viðkomandi eign ásamt dráttarvöxtum í 2 ár, er einmitt nákvæmlega shlj. 5. gr. l. nr. 36 4. júní 1924, um fasteignagjöld í Rvík. Þegar lagzt er svo mjög á móti þessu frv., að fram eru fluttar aðrar eins fjarstæður og þetta, þá fer ég að skilja, af hvaða rótum þessi andstaða er runnin, því að það er hverjum heilvita manni ljóst, að mikið af því, sem hefir verið notað hér sem rök gegn þessu frv., er svo gersamlega tilhæfulaust, að undrun sætir, að hv. þdm. skuli láta annað eins frá sér fara.

Mörg ákvæði þessa frv., sem hér liggur fyrir, eru nákvæmlega hliðstæð ýmsum lagaákvæðum viðvíkjandi fasteignagjöldum til bæjasjóða. Fasteignagjald af húsum hér í Rvík má samkvæmt þessum lögum, sem ég minntist á áðan, vera 8 kr. af þúsundi, og eftir vatnsskattslögunum allt að 6 kr. af þúsundi, eða alls 14 kr. af þúsundi. En það, sem farið er fram á í þessu frv., er samtals 10 kr. af þúsundi — sem hámark — og ekki er gert ráð fyrir því, að notuð verði heimildin um vatnsskatt, sem þó er notuð í flestum bæjum landsins. Þegar þess er gætt, að fasteignagjald á Ísafirði yrði eftir frv. 10 kr. af þús., en er hér í Rvík 14 kr. af þús., þá sýnir það sig, að það er útilokað að halda því fram, að hér sé verið að búa til einhvern óstjórnlegan skattstiga, sem geti orðið stórkostlega misnotaður gegn pólitískum andstæðingum bæjarstj.

Ég hirði eigi um að fara neitt út í pólitískar árásir af hálfu hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli. Hann sagði t. d., að tilgangurinn með þessu frv. væri enginn annar en að misnota heimildir laganna. Einnig sagði hann m. a., að ég sérstaklega sem flm. málsins hefði farið með vísvitandi ósannindi í málinu. Ég neita því algerlega, og ég býst við, að sú aths., sem hv. þm. hefir gert við mína ræðu, sé sama eðlis og þær aths., sem hann gerði við endurskoðun sparisjóða hérna um árið, meðan hann sinnti því starfi.