29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af því, sem hv. þm. Ak. minntist á í sinni ræðu. Hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að það ætti að leggja þennan fasteignaskatt, sem frv. gerir ráð fyrir, á húseigendur almennt eftir efnum og ástæðum. þetta vil ég leiðrétta, því að það er misskilningur hjá hv. þm. Ég sagði aðeins, að réttlátt væri, að leyft yrði með þessu frv. að leggja húsaskatt á húseigendur eftir efnum og aðstæðum þeirra gagnvart húsunum og notkun þeirra, en ekki með tilliti til þess, hvort t. d. einn húseigandi ætti 100 þús. kr. í sparisjóði, en annar ekki neitt, þannig að endilega ætti að leggja hærri skatt á þann, sem ætti 100 þúsundirnar heldur en hinn, sem ekkert ætti. Ég hélt því fram, að þennan skatt ætti að leggja á eftir því, hvernig menn notfærðu sér fasteignir sínar, — m. ö. o. að gefin væri heimild til þess að leggja á smávegis „luksus“-íbúðaskatt. Þetta eitt átti ég við, en ekki, að skattur þessi skyldi lagður á eftir efnum og ástæðum almennt. Þetta vildi ég aðeins leiðrétta, en ég sé ekki ástæðu til þess að fara neitt út í ræður annara hv. þm. Þó vil ég bæta við fáeinum orðum út af því, að hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þessi skattur, sem hér um ræðir, mundi vera einsdæmi í öllum heiminum. Ég hygg þetta vera rangt hjá hv. þm., því að víða erlendis er lagður slíkur skattur, mismunandi hár, eftir því hvort stórar eða litlar íbúðir er um að ræða, m. ö. o. sérstakur stóríbúðaskattur. Slíkur skattur var algengur í Vínarborg á sínum tíma, en fyrir hann voru verkamannabústaðirnir í Vín byggðir. Svipuð hugsun lá til grundvallar fyrir hinum svokallaða þjónustufólksskatti í Vín, sem var stighækkandi skattur, sem lagður var á húsbændur, sem höfðu ákveðna tölu þjónustufólks. Þannig borgaði maður með meðalheimili og eina þjónustustúlku engan sérstakan skatt fyrir það, en maður, sem hafði samskonar heimili en aftur á móti 2—4 þjónustustúlkur, varð að borga sérstakan skatt fyrir hverja stúlku, sem umfram var 1—2, eftir því hvað fjölskyldan var stór, og svo hækkaði skatturinn eftir því, sem þjónustufólkið var fleira. Þessi skattur var mikið notaður í Vín og var vitanlega illa þokkaður af skoðanabræðrum hv. sjálfstæðismanna, en að sama skapi var hann vel þokkaður af alþýðunni í borginni. (JJós: Hún er nú búin að vera í Vín). Já, og það getur vel verið, að hv. þm. hlakki yfir því, að búið er að leggja í rústir hina glæsilegu verkamannabústaði Vínarborgar af skothríðum herliðs, sem sigað var á fátæka, atvinnulausa og umkomulausa verkamenn þar í borginni.

Það má vel vera, að hv. þm. Vestm. sjái ástæðu til þess að gleðjast yfir stjórnarskiptunum í Vínarborg, en ég get ekki tekið þátt í þeirri gleði hans.