29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það var sem komið hefði við skapsmuni hv. þm. Vestm., þegar ég benti á, að hlakkað hefði í honum yfir því, að nú væri önnur stj. í vín en áður var, vona ég, að hæstv. forseti telji það ekki óhæfilegt, þó að ég minnist á Vín fáum orðum. (Forseti: Ég óska þess, að hv. þm. blandi ekki þessu máli inn í umr.). Ég vil fá að leiðrétta ranga frásögn og ósannindi, sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni um þetta.

Fyrst vil ég þó drepa fáum orðum á það, sem hv. þm. sagði og lagði áherzlu á, að afstaða mín í tekjuöflunarmálum bæjarfélaganna væri óhrein. Ég hefi áður sýnt fram á, að þessi réttur til uppskipunargjalda á Ísafirði er annars eðlis en vörugjöld þau, sem hv. þm. vill fá fyrir sitt kjördæmi. Hann á ekki að leiða til þess, að vöruverð hækki, heldur til þess, að gróði einstakra manna falli niður, en sá gróði renni til bæjarins í staðinn. Hér er því ekki um grímuklædda afstöðu að ræða, eins og hv. þm. sagði.

Þá lét hann það í ljós, að honum geðjaðist ekki að málflutningi mínum á Alþingi, og vék hann í því sambandi að mínu borgaralega starfi og gaf í skyn, að ég væri því ekki vaxinn. Það læt ég sem vind um eyru þjóta. En þessi orð hans minntu mig á orð eins af merkustu mönnum þessa lands, sem nú er nýlátinn. Hann sagði, þegar hann varð fyrir ádeilu af andstæðingi sínum: Næst hrósi góðra manna eru mér geðþekkar árásir óvandaðra manna. — Ég vil taka undir þessi orð hins látna merkismanns og segja: Næst hrósi þeirra manna, er ég met mikils, eru mér geðþekkar árásir þeirra manna, er ég met lítils.

Þá vil ég, með leyfi hæstv . forseta. víkja fáum orðum að því, sem hv. þm. sagði um Austurríki. Ég skal vera stuttorður og ekki nefna Vín, en Dollfusz kemst ég víst ekki hjá að nefna. Ég þarf að leiðrétta sögulegar villur og pósitívar rangfærslur hv. þm. á þessum viðburðum. Hann sagði, að drápin á verkamönnum og skotin á verkamannabústaðina hefðu stafað af því, að sósíalistar hefðu heimtað meira vald en þeir áttu rétt til. Svo mjög sneri hann við staðreyndum, að hann gat þess ekki, að Dollfusz hafði tekið sér einræðisvald, þvert ofan í landslög og stjórnarskrá ríkisins. Hann lét ekki kosningar fara fram, heldur setti þingið út úr starfsemi og tók sér einræðisvald með stjórnarskrárbroti. Þetta eru svo viðurkennd sannindi, að ég hélt, að hv. þm. hlyti að vita það og gerðist ekki, svo djarfur að snúa við hlutunum á þennan hátt. Það voru því ekki sósíalistar, sem leituðust við að taka meiri völd en þeim bar, heldur voru það þeir, sem mest hömluðu upp á móti ofríki flokks, sem gegn landslögum tók sér einræðisvald. Allir vissu, að sá flokkur, sem stóð að þessu, hafði ekki til styrktar sér meira en 1/10 hluta af þjóðinni. Nazistarnir, hálfgerðir skoðanabræður hv. þm. Vestm., voru andvígir Dollfusz, sama var að segja um hinn mikla sósíaldemókrataflokk og eins kommúnistaflokkinn og nokkuð marga smáborgaralega milliflokka. Flokkur Dollfusz hafði því sáralítinn hluta þjóðarinnar með sér. En gegn vilja landsmanna hrifsaði hann völdin. Því vildu verkalýðsfélögin ekki una. Þegar Dollfusz og hans menn sáu, að þeir myndu ekki nógu voldugir til að halda velli með öðrum hætti, var gripið til blóðbaðsins alkunna. — Ég hefi þá leiðrétt þessi öfugmæli og vona, að hæstv. forseti virði mér til vorkunnar, þó að ég vildi ekki láta því ómótmælt að sögulegar staðreyndir væru rangfærðar á þennan hátt.