03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ekki fallizt á skoðun hæstv. ráðh. um þetta. — Það er alveg rétt, eins og ég tók fram, að það er þörf á að auka tekjur bæjarins, en það má ekki flaustra því af á þennan hátt og í athugunarleysi.

Nú hefir það sýnt sig, að það hafa komið andmæli frá miklum þorra bæjarbúa og nálega öllum fasteignaeigendum í bænum gegn því fyrirkomulagi, sem hér á að ná tekjum með. Þetta frv. er einstakt að ýmsu leyti að því er öflun bæjartekna við kemur. Ég efast ekki um, að Ísafjörður þurfi tekjuauka eins og aðrir bæir, en að hlaupa til að samþ. frv. eins og þetta, sem ábyggilega mikill meiri hl. bæjarbúa er mótfallinn, það tel ég mestu fásinnu. Og að ætla sér að láta slíkt mál ganga nefndarlaust í gegnum þingið. Það vona ég, að hv. þdm. láti sér ekki sæma.

Hæstv. ráðh. segir, að bæjarstj. muni að því er uppskipunargjöld snertir fara á hverjum tíma eftir því, hvað hún teldi hæfilegt og bæjarbúum fyrir beztu. Ég efast um, að svo verði, og ég hefi bent á galla, sem því fyrirkomulagi fylgja, einkum að því er snertir aðra en bæjarbúa, sem þurfa að nota höfnina og hafnarmannvirkin til flutninga að sér og frá. Ég vil benda á dæmið, sem ég tók um Djúpbátinn og þau kjör, sem hann gefur. Þeir, sem þurfa að flytja með honum frá eða til Ísafjarðar, greiða fyrir uppskipun 40 aura á stykkið sem hámarksgjald, en 25 aura sem lágmarksgjald, en meðan bæjarstj. hafði einkarétt var gjaldið að lágmarki 60 aurar fyrir stykki og miklu hærra fyrir þyngri stykki. Það er því sýnilegt, að þegar á það er litið, að mikill meiri hluti af stykkjatölu af vörum bænda er fyrir neðan 50 kg., yrði það ekki svo lítill aukaskattur, sem á þá er lagður með því að veita bæjarstj. Ísafjarðar einkaleyfi á uppskipun.

Það hefir verið forðazt að samþ. hliðstæð ákvæði fyrir Akureyri, vegna þess að þá yrðu skattlagðir óviðkomandi menn, sem sé íbúar Eyjafjarðar og að einhverju leyti Þingeyjarsýslu, ef slíkt væri leyft. Hér er farið fram á að gera það sama, og ég tel það ósamræmi í löggjöfinni, ef það er leyft í einu héraði, sem er bannað í hinu.

Ég vil fullyrða, að það má á annan og heppilegri hátt ná sömu tekjum fyrir bæjarsjóð Ísafjarðar og hér er farið fram að ná, án þess að farin sé þessi leið, heldur aðrar leiðir, sem væru miklu vinsælli hjá bæjarbúum og miklu meira í samræmi við löggjöf annara kaupstaða en þær leiðir, sem hér eru valdar. — Ég sting upp á, að málinu verði vísað til allshn.