03.04.1935
Efri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Magnús Guðmundsson:

Af því að mér heyrðist hæstv. ráðh. álíta, að þetta mál ætti ekki að fara til n., vil ég beina fyrirspurn til hans um ákvæði 4. gr. Þar stendur: „séu gjöld þessi ekki greidd áður en 2 mánuðir eru liðnir frá gjalddaga, skal gjaldandi — þinglesinn eigandi eignarinnar — greiða bænum dráttarvexti“.

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að það sé sá eigandi eignarinnar, sem eftir veðmálabókum á hverjum tíma er eigandi. Á hann falla dráttarvextirnir, en ekki þann reglulega eiganda, ef eignaskipti hafa orðið án þess að þinglesið hafi verið. Nú er það vitað, að það eru margar eignir, sem trassað er að þinglýsa eigendaskiptum að. Þar af leiðandi getur þetta gjald, ef frv. er samþ. óbreytt, lent á mönnum, sem einhverntíma áður hafa verið eigendur eignarinnar — þeir geta verið steindauðir og búi þeirra hafi verið löngu skipt —, en samt eiga dráttarvextir að falla á þá, en ekki þann reglulega eiganda. Ég get ekki skilið, að þetta sé tilgangurinn, heldur sé hér um að ræða ranga framsetningu á réttri hugsun. Þetta ákvæði er líka með öllu óþarft, því að fasteignin sjálf stendur sem lögveð fyrir þessu gjaldi, og hefir það forgang fyrir öðrum veðkröfum, og mér finnst það líka óviðeigandi að leggja skatt á menn, sem alls ekki eiga eignina, en hafa einhverntíma átt hana.