29.10.1935
Efri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. meiri hl. hefir skýrt frá, eru það aðallega tvö atriði, sem frv. ræðir um. Annarsvegar það, að Ísafjarðarkaupstaður fái heimild til þess að leggja ný gjöld á fasteignir í kaupstaðnum. Þessi skattur er í tveimur liðum, annarsvegar lóðagjöld eftir verði — í stað þess að nú eru lóðagjöld eftir flatarmáli — og hinsvegar fasteignaskattur á hús. — Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að slík gjöld sem þessi eru nú komin á a. m. k. hér í Rvík, bæði af lóðum og húsum, eftir fasteignamati. Það er þess vegna í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þó að Ísfirðingar fari fram á að fá svona tekjustofna fyrir sig. En ég hefi þó ekki getað fallizt á að fylgja málinu, vegna þess hvernig því er fyrir komið í þessu frv. Þarf ekki annað en að bera saman samskonar ákvæði, sem gilda hér í Rvík, til þess að sjá, hver munur er á. í Rvík er þetta gjald fastákveðið. Það skal gjalda 8‰ af húsum, 6‰ af byggingarlóðum og 1‰ af görðum, fiskreitum og plönum. En á móti þessu tekur bærinn að sér ýms störf, sem húseigendur yrðu annars að borga fyrir á einhvern hátt, ein, og t. d. Sorphreinsun, eyðingu á rottum, brunamál og eitthvað fleira. Það er því í tveimur atriðum, sem mismunar, annarsvegar að Ísafjarðarbær tekur ekkert að sér á móti þessu gjaldi, og svo hitt, sem er aðalatriðið fyrir mér, að þetta gjald verður svo mismunandi á Ísafirði. Af húsum og byggingum á það að vera frá 4‰ og upp í 10‰ og af lóðum og öðrum fasteignum frá 1‰ og upp í 10‰. Þetta á að ákveðast með reglugerð, og meira að segja er gefið í skyn, að ekki eigi að vera sama gjald af öllum húsum, heldur eigi að setja ákvæði, sem bersýnilega á að framkvæma eins og niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. Þetta á því ekki að verða fasteignagjald, sem leggst á eignina, t. d. hús, heldur eigandann, sem býr í húsinu.

Það segir beinlínis í 2. gr. frv., að það skuli miða fasteignamatið við íbúafjöldann, eftir nánari fyrirmælum í reglugerð. Þetta er ný leið, sem ekkert fordæmi er fyrir annarsstaðar. Það er ekki fasteignagjald nema að nokkru leyti, en að öðru leyti er það bara gjald, sem lendir á mönnum mismunandi eftir þeirra ástæðum.

Það hefir aldrei fengizt upplýst, hverskonar hugsun það er, að miða fasteignagjaldið við íbúafjölda húsanna. Þó hefi ég helzt getað fengið það út, að meiningin sé sú með því að hafa hærra gjaldi á húsum með fáa íbúa, að það eigi að koma fram sem „lúksusíbúðaskattur“. En svo á aftur að ívilna þeim húsum, sem margir búa í. Mér finnst, að þetta geti stefnt í skakka átt, að verðlauna, að sem flest fólk hrúgist saman í hús. Þetta getur leitt út í allt annað en það, sem hv. 4. landsk. og hans flokksbræður hafa talið æskilegt um íbúðarskilyrði alþýðunnar. Ég held, að það sé dálítið óljóst fyrir hv. flm. þessa frv., hvernig þeir ætla að koma þessu fyrir. En það er ljóst, að með þessu er blandað saman tvennu, fasteignagjaldinu, sem er eðlilegt að bæjarsjóðir hafi, og hinsvegar að mismuna mönnum eftir efnum og ástæðum. Nú getur maður sagt, að ekki sé ranglátt að mismuna mönnum eftir efnum og ástæðum, en það er þegar komið fram í útsvarsálagningunni.

Ég skal ekki fara mikið út í hinar ýmsu afleiðingar, sem af þessu verða, en aðeins taka dæmi um hús, sem einn maður hefir búið í og skattur af húsinu ákveðinn með tilliti til þess, en svo selur hann húsið öðrum manni, sem kannske leigir það 4 til 5 fjölskyldum. Þá á skatturinn allt í einu að breytast á þessu húsi. Mér finnst, að þetta hringl fram og til baka um það, hvaða skattur hvíli á húsinu, geti haft ýmsar afleiðingar, svo sem um veðhæfni slíkrar eignar. Það er þetta, sem gerir það að verkum, að ég hefi ekki viljað fylgja þessu atriði í frv., enda þótt mér finnist eðlilegt og geti vel gengið inn á, að Ísfirðingar fái eitthvert tiltekið fasteignagjald lagt á hjá sér.

Það eru komnar fram brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. um að bæta úr þessu atriði frv., en ég ætla að bíða með að taka afstöðu til þeirra þangað til hann er búinn að tala fyrir þeim, en þær munu vera nokkru nær minni skoðun. Mér finnst eðlilegt, að gjaldið sé hreinlega ákveðið og eitt og það sama, án tillits til, hvernig húsið er notað í svipinn, og það gangi jafnt yfir allar eignir á sama tíma, en heimild til þess að breyta því aðeins frá tíma til tíma.

Þá er hitt atriðið, sem mér skildist hv. frsm. meiri hl. telja vera eina ágreiningsatriði mitt, að bærinn tæki einkarétt á allri uppskipun og framskipun á vörum. Það kann vel að vera, að í n. hafi ég hreyft meiri andmælum gegn þessu atriði en hinu, en það er sem sagt, eins og ég hefi skýrt frá, að ágreiningurinn er aðallega um hitt atriðið. Það ræður af líkum, að ég og hv. frsm. meiri hl. komum okkur ekki saman um það, hversu mikil sáluhjálp sé að því, að bærinn taki að sér þessa starfsemi. Hann er skyldugur til að hafa þá skoðun, samkv. sínum flokki, að þetta hljóti að fara betur í höndum bæjarins — og þeirri skoðun heldur hann trúlega fram —, en ég er ekki þeirrar skoðunar. — Annars fór hann ekki mikið út í það, heldur að það væri raunverulegur einkaréttur á uppskipun, og tók til dæmis gufuskipafélögin. Það er satt, að flestir telja það hentugast að láta eimskipafélögin annast uppskipunina fyrir sig, því að þau hafa bæði vörugeymsluhúsin og verkamennina. En það er sá stóri munur á, að þessi einkaréttur eimskipafélaganna er ekki lögfestur, og þessvegna hafa þau hann aðeins meðan þau bjóða góð kjör. En sé þessi réttur lögfestur, má enginn annar koma þar nærri, og eimskipafél. — og í þessu tilfelli bærinn — mundi hafa þennan rétt, hvernig sem það að öðru leyti færi úr hendi.

Hv. þm. N.-Ísf. er nógu kunnugur til þess að dæma um, hvernig Ísafjarðarbæ fórst úr hendi að hafa þennan rétt, sem hann tók sér og hafði í 10 ár. En þá var farið að grafast fyrir það, hvort bærinn hefði lagalegan rétt til þess, en hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að svo væri ekki. Þess vegna er það, að bærinn fer fram á að fá þennan einkarétt með lögum. Ég skal ekki dæma um þetta, en það er fullyrt af kunnugum, að bærinn hafi verið mjög dýr á þessari vinnu, samanborið við Djúpbátsfélagið, sem annaðist alla uppskipun úr bátnum. mér hefir verið tjáð, að þetta stafi meðfram af því, að barinn setji taxta á uppskipun. Og svo, hvort sem verðlag kann að hækka eða lækka, er taxtinn alltaf sá sami ár eftir ár.

Ég hefi enga trú á því, að bærinn geri þetta ódýrara en aðrir. En það mætti færa fram aðra ástæðu fyrir því, að bærinn yrði látinn hafa þessi einkaréttindi, sem sé þá, að það myndi veita tekjur í bæjarsjóð. Þetta er náttúrlega örugg leið til þess, því að þó að nokkur varnagli sé að vísu sleginn í þessu efni, er þetta samt í raun og veru svo rúmt, að því mætti haga svo að segja hvernig sem er. Ég gæti trúað, að þetta myndi túlkað þannig, að bærinn hefði mjög óbundnar hendur. Þetta væri þá nokkurskonar vörugjald, sem bærinn fær í sinn sjóð. Og þó að mér finnist vörugjöld, sem bæirnir leggja á, hálfgert skrípi, þar sem eðlilegast er, að ríkið hirði slíka skattstofna, þá er nú samt svo komið fyrir mörgum bæjum, að þeim fer að verða nauðsyn á slíkum tekjum, svo nærri sem ríkið er farið að ganga bæjunum um ýms framlög. Og þó að ég vilji ekki að svo komnu gefa ákveðna yfirlýsingu í þessu efni, þá vildi ég samt, að þetta væri tekið til athugunar. Í þessu sambandi hlýtur hugurinn t. d. að hvarfla að hinum nýju framfærslul., sem safna allri framfærslunni á bæina.

En mér finnst það óeðlileg aðferð, að bæirnir séu að leggja á vörugjöldin. Það á ríkið að gera, en ekki að vera að fela einhverjum bæjarstj. að nurla með þau.

Ég hefi verið að hugsa um það, hvort ég myndi ekki geta borið fram brtt. við þetta frv., svo að mér væri fært að fylgja því svo breyttu. En nú eru fram komnar brtt. frá hæstv. forseta og hv. þm. N.-Ísf. Þegar ég er búinn að athuga þær brtt., mun ég geta skorið úr því, hvort ég get fylgt frv. með þeim breyt., sem þær gera á því, eða ekki, þó að ég hafi raunar upphaflega talið, að nauðsynlegt myndi vera að leggja fram alveg nýtt frv.