04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Hv. frsm. minni hl., 1. þm. Reykv., breiddi sig mikið út yfir það, að aldrei gæti orðið of mikið ímyndunarafl hjá hv. þm. til þess að leita eftir smugum, sem kunna að verða á þeirri löggjöf, ef frv. þetta nær fram að ganga. Ég fæ nú ekki séð aðra smugu á frv. en bilið á milli gjaldsins frá því, sem það skal vera lægst, og til þess, sem það má vera hæst. Á því bili geta menn hugsað sér skattinn hvar sem vera skal. Upp fyrir hámarkið er ekki hægt að fara, svo hér er ekki mikið svigrúm. En heildarniðurstaðan í ræðu þessa hv. þm. virtist vera sú nýja kenning hans, að það ætti að leggja hærri skatta á fátækasta fólkið, þar sem flestum er hrúgað saman og er í lélegustu húsakynnunum, til þess að þröngva því til að taka sér betri íbúðir.

Ég býst við, að við hæstv. forseti getum látið niður falla meira karp um upp- og útskipun. Við höfum hvor sína skoðun um það mál. En ég get ekki séð, að neitt hafi komið fram, sem gefi til kynna, að þetta gerði neitt dýrara hjá bænum heldur en gufuskipafélagi. Þó að Eimskipafél. Íslands hafi lítilsháttar tekjur af þessu hér í Rvík og kannske úti um land, þá held ég, að ekki yrði tekinn svo stór spónn úr aski þess með frv. þessu, að fella verði þess vegna niður úr því þennan rétt Ísafjarðarkaupstaðar til tekjuöflunar.

Þá er hæstv. forseti (2. þm. Eyf.) hræddur við, að einkaréttur bæjarfélags til afgreiðslu skipa geti leitt til ýmissa mistaka á þeim störfum, til óþæginda fyrir þá, sem vörurnar eiga. Um þetta er ég ekkert hræddur. Í raun og veru hefir Eimskipafél. Ísl. þennan rétt, enda þótt hann sé ekki lögverndaður, því að þar sem það skipar upp, getur enginn vörumóttakandi komið því við að taka á móti vörum sínum úr skipi. Svo að í raun og veru hefir Eimskip þennan einkarétt nú. Og ég get ekki séð, að það ætti frekar að geta valdið skaða, þó að bæjarfélag hefði þessi réttindi.

Hv. 1. þm. Eyf. þarf ég sáralitlu að svara. Ég var ekki að láta í ljós óánægju við hann, heldur aðeins vonbrigði út af því, ef hann ætlar að nota fyrirvara sinn í nál. til þess að ganga á móti frv. (BSt: Til hvers heldur hv. þm., að fyrirvarinn hafi verið settur?). Ég tek hann bókstaflega, af því að ég talaði vinsamlega um það áhugamál hans, að Siglufjarðarkaupstaður fengi réttindi til þess að ná tekjum í bæjarsjóð sinn. En ég sagði, að það væri ekki hægt að veita þeim bæ þessi réttindi eftir sömu linum og öðrum kaupstöðum, af því að það stæði sérstaklega á um Siglufjörð í því tilliti. Mér fannst hann ekki taka nema aðra hlið málsins, þegar hann talaði um, að aðkomumenn notuðu göturnar á Siglufirði og að vegna aðkomumanna þyrfti bærinn meiri lögreglu. Skyldi bærinn þá ekki einnig fá meiri tekjur vegna þessara aðkomumanna, bæði gegnum verzlun, húsaleigu og annað, að ógleymdum hinum mikla vöruflutningi til bæjarins og frá, vegna hins mikla atvinnurekstrar manna þar, sem ekki eru þar búsettir? Ég þykist hafa tekið mjög vel undir mál Siglufjarðarkaupstaðar. Hinsvegar erum við ekki farnir að ræða um löggjöf fyrir þann bæ í þessu tilliti í einstökum atriðum.

Mér virðist það mæla með því, að þetta frv. verði samþ., að Ísafjarðarkaupstaður hefir ekki notað sér að fá samskonar heimild og aðrir kaupstaðir hafa til að leggja á vatnsskatt. Ég sé ekki annað en að húseigendum á Ísafirði eigi að vera nokkurn veginn sama, hvort skatturinn heitir húsaskattur eða vatnsskattur.

Mér skildist á hv. þm. N.-Ísf., að honum þætti réttara að leggja að á vatnsskatt á Ísafirði. (JÁJ: Þeir hafa ekki á móti húsaskatti). Má vera, að þar standi fyrir dyrum kostnaðarsamar endurbætur á vatnsleiðslunni. Þá hefir bærinn ekki síður þörf á að fá tekjustofna, sem hann getur byggt á, svo sem þau fasteignagjöld, sem lagt er til með frv. þessu, að lögfest verði fyrir bæinn.

Ég sé ekki ástæðu til að koma fram með brtt. við frv., þó að mér þyki of lágt það, sem hv. þm. N.-Ísf. stingur upp á um lóðagjaldið. Ég vil sjá, hvernig málið horfir við eftir þessa umr.

Ef samþ. verða brtt. á þskj. 404 og 424, þá sé ég ekki, að mikið sé orðið eftir af tekjuöflunarmöguleikum fyrir kaupstaðinn eftir frv., þegar búið er að breyta því svo. Því að í brtt. á þskj. 424 er lagt til, að lögfest verði, að eftir að lög þessi komist til framkvæmda annist bærinn, húseigendum að kostnaðarlausu, sóthreinsun og ráðstafanir til útrýmingar rottum og varnir gegn eldsvoða. Með þessu væri, ef að l. yrði, lagðar á bæinn skyldur til að annast þessi störf án endurgjalds, sem hann hingað til hefir haft tekjur fyrir. Og með því móti yrði þetta miklu óaðgengilegri löggjöf fyrir Ísafjarðarkaupstað heldur en ef frv. yrði samþ. óbreytt. Ég sé því ekki ástæðu til að samþ. neinar brtt. við frv. — En það má vel vera, að rétt sé að gera bilið á milli lágmarks og hámarks í skattinum minna en það er nú, til þess að ímyndunaraflið hafi ekki eins lausan tauminn.