04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

Það er misskilningur hjá hv. frsm. meiri hl., að fasteignaeigendur á Ísafirði hafi á móti því, að fasteignagjaldið til bæjarsjóðs hækki. En það er aðferðin til þess að ná því, sem þeir eru ekki sammála sumum hv. þm. um. Þeir tóku fram í sínum mótmælum, að þeir mótmæltu því, að fasteignaskatturinn væri hafður mismunandi á hinum ýmsu fasteignum, að öðru leyti en það byggðist á verði húsanna eftir fasteignamati. Og að Ísafjarðarkaupstaður taki, ef brtt. mín nær fram að ganga, á sig byrðar, sem aðrir kaupstaðir ekki þurfi að bera, það er líka rangt. Bæði hér í Rvík og annarsstaðar, þar sem þessi fasteignagjöld eru lögboðin, taka bæirnir að sér sóthreinsun, útrýmingu á rottum, varnir gegn eldsvoða og sorphreinsun. Með þessu frv. er ekki farið fram á, að bæjarsjóður taki að sér neitt af þessum störfum, svo að bærinn hefði, þó að brtt. mín yrði samþ., minni útgjöld vegna fasteigna bæjarbúa heldur en aðrir bæjarsjóðir hafa. Þetta bið ég hv. þm. að athuga. Og eins það, að eftir mínum till. er fasteignagjaldið hærra af byggingarlóðum en hér í Rvík. Ég get verið með því að setja hámarksgjaldið hærra, svo að ettir mínum till. hafi Ísafjarðarkaupstaður eins miklar tekjur af þessu gjaldi og Rvík, hlutfallslega, eða meiri, og minni skyldur. Ég hygg, að sorphreinsun sé ekki lítill útgjaldaauki hér í Rvík fyrir bæjarsjóð, og mundi verða það líka fyrir Ísafj.-kaupstað, ef bærinn ætti að annast það. En þess álít ég ekki þörf. Menn eru vanir því þar að annast þetta sjálfir, og það er hægra um sorphreinsun á Ísafirði en annarsstaðar, vegna legu bæjarins, þar sem hann liggur svo nálægt sjó og er umluktur af sjó. Þess vegna er minni ástæða til þess á Ísafirði en víðast eða alstaðar annarsstaðar, að bærinn taki að sér sorphreinsun. En ég vænti, að frsm. meiri hl. sjái, að Ísafjarðarkaupstað yrði aðeins íþyngt með því að láta bæinn annast það.