13.11.1935
Efri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil taka það fram, að ef ég ætti að ráða þessum till., þá mundi ég frekar óska eftir, að till. hv. þm. N.-Ísf. væru samþ. heldur en mínar till., því að þar eru miklu nær því, sem ég lét hér áður í ljós, að væri vilji minn í þessu máli. En eins og ég sagði áðan, bar ég mínar till. fram aðeins til samkomulags. — Það er ómögulegt að segja annað en að eftir mínum till. hafi bæjarstj. talsvert frjálsar hendur um það, hvernig hún kemur þessu fyrir, en aðeins að það verði ákveðinn skattur á hverri tegund, eins yfir alla línuna. Úr því vildi ég fá skorið. Hjá hv. þm. N.-Ísf. er hvorttveggja gert. Réttur bæjarstj. til að mismuna skattinum á samskonar eignum er þar numinn burt og hún hefir þar alveg bundnar hendur um það, hvort skattgjaldið skuli vera, og í öðru lagi vill hann ákveða eins og ég, hvaða gjald skuli vera af hverri tegund fasteigna.

Hv. 4. landsk. leit svo á, að samþ. mætti eina, af till. hv. þm. N.-Ísf., og ég er honum sammála um það, að sú till. er sjálfsögðust af þeim öllum. Ég tel sjálfsagt, ef hún verður ekki samþ., að bæjarstj. noti svigrúm b-liðsins til að ákveða lágt gjald af þeim lóðum, sem eru ekki byggðar.

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði um brtt. mína og ákvæði frv., vil ég aðeins geta þess, að það er ekki alveg rétt, sem hann sagði, að bæjarstj. gæti aðeins mismunað gjaldinu svolítið, en væri aðeins bundin við hámarkið. Það munar þó meiru en helmingi, því að samkv. frv. má leggja á hús frá 0,4% og upp í 1%, og af lóðum og öðrum fasteignum má gjaldið vera 10 sinnum hærra en það má vera minnst, og það er ekki að mismuna svolítið, og það getur ekki heldur kallazt að mismuna svolítið, ef skatturinn er hækkaður um meira en helming. Það er því mjög villandi, þegar hann segir, að ákvæði frv. heimili aðeins að mismuna svolítið. Ég tel þetta vald, sem á hér að fá bæjarstj., vera mjög varhugavert, því að hún hefir öll tök á því eftir öðrum leiðum að mismuna mönnum eftir efnum og ástæðum. Ef það væri ekki, þá gæti verið rétt að hugleiða, hvort ekki væri rétt að gefa þannig vald til að mismuna mönnum eftir efnum og ástæðum, en eins og nú er ástatt sé ég enga þörf á því.

Það hefir verið bent á fyrr, að sú hugmynd, sem hér liggur til grundvallar, að leggja t. d. hærra gjald á hús, ef fáir búa í því en ef margir búa þar, getur verkað þveröfugt við það, sem til er ætlazt. Það getur orðið til þess, að húseigendur fylli hverja kró í húsinu af fólki, allt neðan úr kjallara og upp á háaloft, svo að það húsnæði verði algerlega óviðunandi, og tel ég það hreinustu fjarstæðu. En hvað sem því líður, þá vildi ég aðeins leiðrétta það, að hér væri aðeins um ofurlítinn, mjög þröngan ramma að ræða.