31.10.1935
Efri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

146. mál, samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir flutt þetta mál fyrir hönd hæstv. ríkisstj., og það er auðséð á því, hvernig það er útbúið, að meiningin hefir verið, að það yrði stjfrv.

Frv. er talsvert umfangsmikið, en er lítið annað en reglur, sem fyrir löngu er búið að slá föstum með fjölda af dómum. Það hefir kallað nokkuð brátt að um það, að n. léti uppi álit um það, hvort hún vildi flytja frv., enda er það að mestu þýðing af löggjöf þeirri, sem sett hefir verið bæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þó málið virðist umfangsmikið, þá eru þau atriði, sem þar eru tekin til meðferðar, einföld, a. m. k. fyrir lögfræðinga; en þó vil ég taka það fram, að n. áskilur sér rétt til að athuga frv. nánar og óskar þess helzt, að það komi ekki á dagskrá aftur fyrr en eftir helgi. Ég býst ekki við, að það komi til mála, að gerðar verði verulegar efnisbreyt., en hinsvegar gæti ég hugsað mér, að gerðar yrðu nokkrar orðabreyt., og skal ég nefna sem dæmi, að altíða í frv. stendur, að þetta og þetta mátti vera ljóst“. Það er efamál hvort rétt er að orða þetta þannig og hvort það getur ekki valdið misskilningi. Verður þetta athugað betur fyrir næstu umr.

Annars vil ég taka það fram, að ég tel bót að því að fá lögfestar þessar gömlu lögvenjur og dómvenjur, sérstaklega fyrir þá, sem ekki þekkja slíkar venjur.

Frv. virðist óaðgengilegt og þurrt, enda er hér dreginn saman fjöldi af reglum og útdráttur úr þúsundum dóma, sem dæmdir hafa verið um Norðurlönd á undanförnum árum.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en óska þess, að hæstv. forseti taki það ekki á dagskrá fyrr en eftir helgi.