05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

146. mál, samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. á milli umr. og ekki fundið ástæðu til að bera fram nema tvær brtt. við það, sem eru á þskj. 457. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þær, þar er aðeins um orðabreyt. að ræða, til lagfæringar á málvillum eða framsetningu. Annars er það um efni frv. að segja, að í því er ekki mikið nýtt, heldur er þar um að ræða lögfestingu á gömlum venjum og aðferðum, sem búið er að slá föstum með dómum eða fyrir tilstilli fræðimanna í þessum efnum. Eitt orðatiltæki kemur allvíða fyrir í frv., þar sem sagt er, að þessum eða hinum hafi verið það ljóst, eða hefði mátt vera það ljóst. Þetta ber að skilja á þá leið, að góðum og skynsömum manni ætti að vera það ljóst, sem um er rætt. — Ég álít ekki rétt að breyta þessu; það er komið inn í lagamálið og n. sá ekki ástæðu til að breyta því.

Annars er hér lítið um nýjar reglur í þessu frv., þó er í 17. gr. eitt atriði, sem telja má nýmæli, þar sem ákveðið er, að dómari megi úrskurða umboð ógilt með dómi. Þetta er til bóta, en vera má, að hægt hefði verið að fá það framkvæmt eftir gildandi lögum um ógildingardóma. Sú leið er þó seinfarin, og tel ég þörf á því að fá greiðari ógildingaraðferð ákveðna í þessum lögum.

Þá vil ég benda á fyrirsögn III. kafla, en hún er: „Um ógilda löggerninga“. Maður skyldi halda, að gerningar, sem gerðir eru lögum samkv., séu jafnan gildir; en þetta er þó ekki svo að skilja. Sá gerningur, sem er í löglegu formi, getur þrátt fyrir það verið ógildur, og löggerningur getur verið í fullu gildi gagnvart einum, þó hann sé ógildur gagnvart öðrum.

Í 35., 36. og 37 gr. frv. eru nokkur ný atriði. Það er oft ákveðið í samningum, að ef annar samningsaðili vanheldur samning eða efnir eigi þá skuldbindingu, sem á honum hvílir, þá sé honum skylt að greiða hinum aðilanum svo og svo háa samningslega sekt eða bætur, og sennilega yrði hann þá jafnan að greiða þá sektarupphæð, sem tiltekin er í samningi. En samkv. 35. gr. er það lagt á vald dómara að ákveða upphæð þess sektarfjár, sem samningsaðili hafði lofað að greiða, þannig að tryggt sé, að hinum samningsaðila geti ekki orðið það gróðavænlegt að fá samninginn ekki uppfylltan. M. ö. o.: Dómari má lækka févíti það, sem í samningi stendur, ef það telst ósanngjarnt, að aðili greiði það að fullu.

Í 36. gr. er sagt, að ákvæðum 35. gr. skuli beita, ef svo hefir verið kveðið á í samningi, t. d. um hlut, sem seldur hefir verið gegn afborgun, að verði samningnum rift vegna vanefnda annars aðilja, þá skuli hann hafa glatað rétti sínum til að heimta aftur það, sem hann þegar hefir greitt upp í verð hlutarins.

Eins og öllum má vera ljóst, þá er það gróflega ósanngjarnt, ef ekki mætti raska slíkum samningsatriðum, eftir því sem við á. Þess vegna er dómara heimilað samkv. þessum frvgr. að ákveða annað en það, sem í samningi stendur, t. d. í því tilfelli, að salan hefir gengið til baka á hlut, sem um hafði verið samið.

Ákvæði 37. gr. eru svipuð þeim, sem ég nú hefi nefnt, og hirði ég ekki að færa nánar út í það.

N. lítur svo á, að það sé betra fyrir þá, sem eru ólögfróðir, að fá þessi ákvæði staðfest með lögum, og einnig fyrir þá, sem ekki eru kunnugir meðferð samningamála.

N. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem eru á þskj. 457. (JBald: Hvar á að finna þessar lögskýringar, ef hætt verður við að prenta þingræður?). Ég skal svara hv. þm. því, að ég tel ekkert gagn í að leita lagaskýringa í þingtíðindunum, ef þingmenn hætta að leiðrétta ræður sínar, eins og nú er farið að tíðkast. Það er að verða undantekning, að ræður sjáist leiðréttar í þingtíðindunum. (JBald: Þá eru þær betri heimild, séu þær birtar óleiðréttar af þm. og eins og þeir fluttu þær). Nei, því að skrifarar ná þeim ekki réttum.