21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jóhann Jósefsson:

Ég vil leyfa mér að þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir að leggja lið sitt til þess að þetta mál næði fram að ganga. Það er fram borið sökum ályktunar bæjarstj. Vestmannaeyja frá 13. febr. síðastl., þar sem skorað er á þm. kjördæmisins að fá því framgengt á næsta Alþingi, að framlengd verði til ársloka 1937 heimild bæjarstj. til þess að taka vörugjald í bæjarsjóð. Hv. meiri hl. fjhn. hefir ekki að öllu leyti farið eftir óskum okkar í þessu efni, en ég sætti mig þó við þann grundvöll, sem þetta mál er afgr. á, að heimildin sé ekki látin gilda lengur en til ársloka 1936. En ég held samt sem áður, að það fari svo, að sá hv. þingmeirihluti, sem er þessu máli sérstaklega mótfallinn, eigi örðugt með að benda á tekjuöflunarleiðir, sem gefa raunverulega betri árangur heldur en einmitt þetta vörugjald. Ég skal sansast á það, þegar ég sé, að það reynist í rauninni svo í framkvæmdinni, að jafnaðarmenn koma með raunverulega tekjuöflunarleið, sem getur jafnazt á við þá leið, sem ég bendi hér á, en fyrr trúi ég þeim ekki. Þeirra till. í þessu efni virði ég að vettugi. Það er annars rétt, að ég segi það eins og er, að það er ekkert gaman að þurfa að leggja aukavörugjald á vörur, sem um höfnina fara, fyrir utan hafnargjöldin sjálf. Útsvörin í Vestmannaeyjum eru svo há, að það eru ekki nema einstöku menn, sem greiða þau. Þetta gjaldtímabil verða þau upp undir 185000 kr. Ef við tökum til samanburðar Hafnarfjörð, sem hefir útsvör upp á 225000 kr., þá er auðséð — séu borin saman atvinnufyrirtækin á þessum báðum stöðum — að útsvörin eru þyngri í Vestmannaeyjum en í Hafnarfirði. Það getur talizt svipaður fólksfjöldi í þessum tveim bæjum, en Hafnarfjörður hefir meira gjaldþol — miklu meira en það, sem nemur þessum mun á útsvörunum. Vörugjald það, sem hér um ræðir, gefur 30 þús. kr. í bæjarsjóð þetta gjaldatímabil.

Því var haldið fram af hv. minni hl. fjhn., að hann hefði fengið upplýsingar um það, að þetta hefði orðið til þess, að neyzluvörur hækkuðu í bænum. Ég mótmæli því algerlega, að svo sé. Vörugjaldsálagningunni er einmitt þannig hagað, að aðeins hverfandi fá prósent koma á neyzluvörur, t. d. kornvörur, sykur o. fl. þess háttar. Hitt getur verið, að finna megi vörutegund, sem talin er í almennum flokki við innheimtu gjalda, er verði harðara úti heldur en flestar matvörur, en það liggur þá í flokkuninni og ekki öðru. Það kann t. d. að vera, að skófatnaður verði tiltölulega hærra skattlagður en mjöl t. d. í þessu efni.

Yfirleitt má segja, að þetta vörugjald í Vestmannaeyjum sé svo hverfandi lágt miðað við öll önnur gjöld, t. d. vörugjöld, sem renna til hafnarinnar, að það verði enginn maður var við það. Hinsvegar hefir það þann kost, að með því næst til þeirra, sem reka þarna „forretningu“ á vertíðinni og eru svo horfnir. Með þessu nást þó dálítil gjöld af þeim í bæjarsjóð, sem annars myndu ekki nást.

Eins og ég tók fram áðan, þá þykir mér leitt, að hv. 3. landsk. skyldi ekki fást til að taka til máls á undan mér, því að það kostar mig að tvíhrekja sömu firrurnar.

Því mótmæli ég algerlega, sem hv. 1. landsk. sagði, að vörugjaldið hefði orðið til þess að hækka vöruverð almennt í Vestmannaeyjum. Annars finnst mér það óneitanlega töluvert einkennilegt og koma úr hörðustu átt, að þessir hv. þm. skuli vera að setja sig á móti þessum tekjustofni fyrir Vestmannaeyjakaupstað, þegar þess er gætt, að flokksmenn þeirra eru allra manna kröfuharðastir um tillag úr bæjarsjóðnum til atvinnubótavinnu o. fl. Að farið er fram á framlenging á gildi 2. gr. þessara umræddu laga frá 19. júní 1933, er einmitt til þess að geta staðið undir gjöldum til atvinnubóta, og yfirleitt því, sem fátækralöggjöfin leggur bæjarfélaginu á herðar. Ég verð því að telja alveg óhæfilegt af þessum háu herrum að vilja ekki ganga inn á þetta, og þar sem það er líka vitanlegt, að útsvörin eru orðin svo há á þessum stað, að ekki er hægt að ná inn meira en hluta þeirra.

hv. 3. landsk., sem er heimamaður í Vestmannaeyjum, gengur á móti þessu, er bara af einhverri pólitískri fordild, til þess að geta reynt að nota sér það aftur sér til pólitísks framdráttar á eftir.