21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Hannes Jónsson:

Það er að sjálfsögðu engin vanþörf fyrir þessi bæjarfélög að fá einhverja sérstaka tekjustofna fyrir sig. Við Bændafl.-menn höfum flutt bæði á þingi í vetur og svo aftur nú frv., sem á að veita sveitar- og sýslufélögum svipaða aðstöðu og farið er fram á hér í þessu frv. og tveimur þeim næstu, sem á dagskránni eru. Ég hlýt því að styðja bæina á svipaðan hátt og ég vil styðja sýslufélögin í þessu efni. En þó verð ég að segja, að það er ekki sama, hvernig þessara tekna er aflað, og ég hefi áður látið í ljós afstöðu mína til þessarar tekjuöflunar Akureyrarkaupstaðar, sem ég álít, að ekki geti komið til mála á þeim grundvelli, sem þar er um að ræða. Hvað Vestmannaeyjar aftur á móti snertir, þá hafa þær í þessum efnum alveg sérstöðu, þar sem þangað eru ekki fluttar aðrar vörur heldur en þær, sem koma þeim beinlínis við. En í öðrum kaupstöðum er umsetning vara að meira og minna leyti í sambandi við héruðin í kring, sem verða því í gegnum þetta gjald að greiða skatt til þessara bæjarfélaga. En það álít ég alls ekki rétt. Þetta kemur aftur á móti ekki til greina hvað Vestmannaeyjar snertir, eins og ég sagði áður, og því sé ég ekkert á móti því, að þær fái þennan tekjustofn, nema ef menn álíta, að gjaldastofninn í eðli sínu sé ranglátur og ætti heldur að vera, eins og hv. 3. landsk. minntist á, einhverskonar verðtollur. Ég get nú ekki séð, að skoðunarbræður hv. 3. landsk. hafi mikið við þennan gjaldstofn að athuga; a. m. k. er borið fram frv. til tekjuöflunar fyrir Ísafjörð, sem byggt er upp á sama grundvelli, þ. e. a. s., að tekjur eiga að nást í gegnum afgreiðslu, með því að kaupstaðurinn fái einkaréttindi á afgreiðslu skipa. Þetta getur á engan hátt orðið bænum til liðs, nema því aðeins, að uppskipunargjaldið sé reiknað það hátt, að það skapi bænum tekjur, og þá er komið í sama farið eins og ætlazt er til í Vestmannaeyjum. Þetta er þungaskattur, því ég býst ekki við, að fara eigi eftir verðmæti varanna við uppskipunina. En sé svo, þá tek ég þessa fullyrðingu mína aftur.

Ég vil svo í þessu sambandi geta þess, að ég vænti, að hv. allshn. ýti á eftir því máli, sem snertir sveitirnar í þessum efnum, og afgreiði frá sér á næstunni frv. það, sem þar liggur fyrir. Þessi tekjuöflunaraðferð bæjar- og sveitarfélaga er orðin svo brýn og aðkallandi, að það má ekki láta undir höfuð leggjast að gera eitthvað til bráðabirgða, sem síðar mætti bæta með fullkominni löggjöf.