04.04.1935
Efri deild: 42. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Meiri hl. n. hefir fallizt á að mæla með, að frv. verði samþ. Er þar aðeins farið fram á að framlengja um 1 ár þá skipun á þessu fyrir Vestmannaeyjar, sem nú er í l., og er frv. flutt að ósk bæjarstj. Vestmannaeyja. Í grg. frv. er sýnt fram á, að tekjuaukinn af þessu sé um 30 þús. kr. og bænum sé ekki fært að verða af þeim tekjum, nema honum sé séð fyrir tekjuauka á annan hátt. En ég skal segja fyrir mig, að þó að ég leggi til, að samþ. verði að framlengja þetta nú, tel ég yfirleitt ekki heppilegt, að bæjarfélögin taki slík vörugjöld. Þeir skattar eiga að vera bundnir við ákveðin pláss, svo tryggt sé, að gjöldin lendi á þeim, sem staðinn byggja. En nú er búið að ganga svo nærri tekjustofnunum, að komið hafa frá ýmsum bæjarfélögum beiðnir um að fá að taka nokkuð af gjöldunum þannig. Auk þess hafa Vestmannaeyjar þá sérstöðu, að sjaldgæft er, að vörum sé skipað þar á land, sem annað eiga að fara. Kemur því gjaldið eingöngu niður á eyjabúum sjálfum. —

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, enda er kliðurinn í d. eins og í réttum.