04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get verið þeim mun stuttorðari, sem búið er að flytja áður svona frv., að vísu ekki í þeirri mynd, sem það er nú, en þó í aðalatriðum líkt 2 eða 3 frv., sem komið hafa fram áður: frv. um bygging og ábúð jarða, frv. um ættaróðal og óðalsrétt og loks frv. um sölu þjóð- og kirkjujarða. Þar eð þessi frv. öll fjalla um sama efni, hefir sá kostur verið tekinn upp að fella þau í eitt og flytja þau hér í einni heild. Var unnið að þessu að tilhlutun n., er sendi þau Búnaðarfélagi Íslands til samræmingar. Síðan komu frv. aftur til landbn., er felldi þau öll saman og flytur þau hér sem eitt frv.

Frv., ef að l. verður, innleiðir nýja tegund ábúðar, erfðaábúð, bæði á jörðum í opinberri eign og í eign einstaklinga. Það hefir verið mikið um það deilt, hvor ábúðin væri heppilegri, að einstaklingar ættu jarðirnar sjálfir eða ríkið og sveitarfélögin ættu sem mest af jörðunum og byggðu þær bændum til leiguábúðar. Ég verð að segja, að ég legg ekki höfuðáherzluna á það, hvor aðferðin eigi að gilda. Aðalatriðið er ábúðarrétturinn, að tryggja bændum jörðina, afrakstur hennar og það fé, sem þeir leggja í hana, og sömuleiðis að tryggja hana afkomendum þeirra. Ég álít, að hvorum tveggja þessum tilgangi megi ná bæði með opinberri eign jarðanna og eins einstaklingsábúð. Hugmyndin með þessu frv. er að tryggja þetta í báðum tilfellum.

Það má segja, að bæði leiguábúð og einkaeign hafi kosti og galla. Leiguábúðin hefir haft þá stóru galla, að leiguliðum, sérstaklega á jörðum einstakra manna, hefir ekki verið tryggt að hafa ábúðarrétt nema ár frá ári. Þeir hafa aldrei vitað, hvenær þeir yrðu að fara af jörðunum, og ekki vogað að leggja fé né vinnu í þær. eigandi á hættu að verða að hrökklast frá bótalaust. Það hefir þó verið tryggara með opinberar jarðeignir. Venjulega hafa þar verið leigðar til lífsábúðar og afkomendur ábúanda oft hlotið þær áfram. En ekki hefir verið trygging fyrir því, að menn nytu þeirra framkvæmda eða þess fjár, er menn hafa lagt í jarðirnar, því hefir alltaf verið svo, að jarðir í leiguábúð hafa verið verr setnar en einstaklingsjarðir. Aftur á móti hafa þær haft þá kosti, að jarðarverðið og afgjöldin hafa ekki verið háð jafnmiklum verðsveiflum eins og einstaklingseignir. Ýmsir ábúendur á þjóðjörðum hafa því verið betur settir en sjálfseignarbændur, því að afgjöldin hafa ekki breytzt eins mikið og vaxtabyrðin á jörðum einstaklinga. Nú er meiningin að tryggja áfram leiguábúðina með þeim kostum, sem hún hefir haft, en afnema ókosti hennar.

Þegar sú stefna var tekin upp fyrir nokkrum árum að selja þjóðjarðirnar, þá hefði verið betra að taka upp þá stefnu, sem hér er farið inn á, að byggja jarðirnar til lífstíðar, því að með því er ábúanda jarðarinnar tryggt, að þess, sem hann leggur í jörðina, fái hann að njóta alla æfi og sömuleiðis afkomendur haus, er við henni taka. Með þessu eru fengnir inn í leiguábúðina kostir einkaábúðarinnar og jörðin farin að nálgast að vera eign ábúanda.

Aftur á móti hefir einkaeignin gagnvart leiguábúðinni þá kosti fyrir þann, sem átti jörðina, að hún tryggði honum ábúðarrétt meðan hann var maður til að búa á jörðinni. Hann gat notið afrakstrar hennar og starfa og fjármuna, sem hann lagði fram meðan hann bjó þar, og hann fékk þetta endurgjald hjá kaupanda, ef hann vildi fara af jörðinni. Hinsvegar hefir einkaeignin þá annmarka, að gegnum jarðarsöluna hefir jarðarverðið þokazt upp, hærra og hærra, upp undir þá línu, er þær hafa hæst getað rentað sig. Allt, sem eigendurnir hafa sjálfir gert, hefir orðið til að hækka jarðarverðið, líka það, sem ríkisvaldið hefir gert, er þar hafa kapitaliserazt, svo sem vegabætur, aukinn markaður, bætt lánakjör. Allt hefir stuðlað að hækkuðu verði; jarðarverðið hefir skrúfazt upp, svo að þegar afturkastið kom og veðskuldirnar höfðu hlaðizt á, miðað við verðgildi jarðanna í góðærinu, þá varð þetta óbærilegt fyrir bændur.

Með þessu frv. er verið að reyna að stinga á þessu kýli, koma í veg fyrir ágallana á sjálfsábúðinni, með því að tryggja, að ekki megi hvíla á jörðunum nema ákveðin skuldabyrði, sem svarar til 3% vaxta af fasteignamati. Með þessu er reynt að tryggja, að þeir, sem við taka, geti búið á jörðunum án þess vextir og afborganir sligi þá, eins og nú á sér stað um flesta sjálfseignarbændur. M. ö. o., hér er verið að gera einkaeignina að því, sem hún á að vera, ábúðarréttur, tryggur og réttlátur, fyrir þann mann, er á jörðinni situr. Þá er hætt að gera jarðirnar að verzlunarvöru, er geta komizt í það verð, að enginn bóndi geti búið á þeim.

Þetta hefir stóran kost gagnvart sveitunum. Það er öllum kunnugt, hvernig straumurinn hefir legið úr sveitunum, öll viðkoma þeirra hefir streymt í kaupstaðinn, og meira en viðkoman, því að líka hefir fækkað í sveitunum. En hver maður, sem selur jörð, fer með jarðarverðið úr sveitunum, en sá, sem kaupir, tekur við skuldinni og verður leiguþræll hennar. Þessi fjárflótti úr sveitunum, viðstöðulaus eins og hann hefir verið, er ein orsök þeirrar fátæktar og þess vesaldóms, sem er að verða landlægur víða í sveitum landsins.

Með því að láta ekki hvíla á jörðunum meira en 50%, á að vera tryggt, að hægt sé að taka við þeim með því verði, er sé viðráðanlegt. Og auk þess festist þá í sveitunum fjármagn, sem annars hefði flutzt burt.

Ýmsir hafa sagt, að með þessu frv. væri verið að skapa sérréttindastétt í landinu. En þá má segja, að allir þeir, sem fá eignir til umráða, séu sérréttindastétt. En það má nokkuð á milli vera frá því, sem nú er, þangað til bændur verða „sérréttindastétt“, þó að kjör þeirra batni eitthvað. Nú er það yfirleitt þannig, að bændur eru orðnir ánauðugir rentuþrælar, sem ekki geta losnað við skuldirnar, en verða að þræla fyrir þeim alla æfi. Reynt hefir verið að ráða nokkuð bót á þessu með því að gera landbúskapinu arðvænlegri en áður. En samt er flóttinn úr sveitunum meiri en nokkru sinni fyrr. Allir reyna að losa sig við jarðirnar, allir keppast við að flytja burtu og enginn ungur maður vill lengur festa sig við jarðir.

Með frv. þessu er verið að tryggja, að lífvænlegra og eftirsóknarverðara sé að reka búskap. Og því aðeins er hægt að auka byggð í landinu, að þar sé lífvænlegt. Þegar búið verður að tryggja svo réttindi bænda, að landbúnaður verður tryggur og lífvænlegur atvinnuvegur, þegar bændur eru orðnir ekki undirokuð stétt, heldur „réttindastétt“, þá munu skapast þar ný býli, þá munu bændur keppa að því að auka býlin, svo að komi upp tvö þar, sem áður var eitt, og gæti það eitt orðið til að stöðva strauminn úr sveitunum.

Þriðja frv., sem ég minntist á, að væri sett í þetta frv., frv. um afnám sölu á þjóð- og kirkjujörðum, byggist á þeirri reynslu, að þó ýms framför hafi orðið á sviði landbúnaðarins fyrir sölu þjóð- og kirkjujarða, þá hafa komið fram gegn sölu þeirra ókostir sjálfsábúðarinnar, þeir, sem ég nefndi áðan. Því hefir ekki verið álitinn kostur eða þótt fært að leggja til, að jarðirnar yrðu seldar óhindrað áfram, nema tryggður yrði á þeim óðalsréttur. Eru þannig viss ákvæði í frv., sem gera ráð fyrir, að óðalsréttarjörð geti stundum undir vissum kringumstæðum komizt í opinbera eign, þegar sú ætt, sem situr hana, óskar ekki lengur eftir því. Einnig eru ákvæði um það, að jörð í opinberri eign geti komizt í einstaklingseign, þegar kaupandi um leið gerir hana að óðalseign samkv. þessum lögum. Þannig er samspil milli hvorstveggja, eða frv. orðið tengiliður við bæði fyrirkomulögin. Framtíðin verður að skera úr, hvort þeirra er heppilegra, hvort ábúðarfyrirkomulagið íslenzkir bændur frekar kjósi. Frv. leggur þannig grundvöll að einkaábúð, sem nálgast leiguábúð, og að leiguábúð, sem nálgast einkaábúð, þar sem reynt er að sameina kosti beggja og fjarlægja ókostina. Tímarnir verða að sýna, hvort heppilegra er eða hvort þjóðin kann betur við.

Það mun sýna sig, að þetta fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, verður stór liður í að auka velmegun í sveitunum, nauðsynlegur til að gera búskapinn arðvænlegri og lífvænlegri og nauðsynlegur fyrir íslenzku þjóðina, ef hún vill varðveita sjálfstæði sitt.