04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er ekki svo ýkjamargt, sem ég þarf að svara. — Hv. þm. Hafnf. minntist á það, að ég hefði ekki getið þess, að hann hefði ekki getað fylgt okkur hinum nm. að þessu máli. Það er satt; ég gat þess ekki í ræðu minni, en það er tekið fram í nál., og það áleit ég nægilegt. Annars er það ekki svo margt, sem skilur í þessu máli, aðallega er það heimildin um sölu á opinberum jörðum.

Hv. þm. sagði, að þessi þrjú frv. hefðu verið send Búnaðarfél. til þess að það léti í ljós álit sitt á þessum málum, en það var ekki eingöngu það, heldur var þess einnig óskað, að Búnaðafél. athugaði málin og reyndi að samræma þau. Annars sé ég ekki betur en Búnaðarfél. hafi látið í ljós álit sitt á þessu máli, þar sem það hefir lagt til, að það væri flutt í formi þessa frv., því að það hefði ekki komið með þessar till., ef það hefði verið þeim mótfallið.

Annars vil ég mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að það væri enginn verulegur munur á að selja opinberar jarðir eins og hingað til hefir tíðkazt, þannig, að heimilt sé að selja þær undir eins aftur hverjum sem er og með hvaða verði sem vera skal, og svo hinu, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að salan fari þannig fram, að það verði tryggt, að þær verði ekki seldar, heldur haldist áfram í eign sömu ættar, því að með því móti er girt fyrir það, að jarðirnar komist aftur í brask, en einmitt braskið var helzti ágallinn í sambandi við jarðasöluna eins og hún hefir verið, því að þar var ekkert til að hindra það, að menn seldu jarðirnar með uppskrúfuðu verði og kæmu þeim þar með í þá niðurlægingu, sem bíður þeirra jarða, sem þannig er farið með. Það er því mikilsverð höfuðbreyt., að selja nú jarðirnar á þann hátt, sem tryggir það, að jörðin verði í fastri og áframhaldandi ábúð, sem tryggir ábúendunum betri kjör en áður.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að við ræddum talsvert um það í n., að jarðarafgjaldið skyldi ekki vera greitt í peningum, heldur í fríðu. þannig, að það skyldi reiknað eftir verðlagsskrá, hvað afgjaldið skyldi vera í hvert sinn. Ég skal viðurkenna, að það hefir á margan hátt sína kosti. En eins og fram kom í landbn., þá þótti okkur ástæða til að taka það upp á miklu breiðari grundvelli og greiða öll opinber gjöld eftir verðlagsskrá og miða þau þannig við verð afurða í landinu á hverjum tíma, og mætti það þá auðvitað einnig ná til þessara greiðslna, þegar þar að kæmi. Hér er því ekki um skoðanamun að ræða, heldur hitt, að við vildum taka þetta upp. á miklu breiðari grundvelli.

Þá virtist mér hv. þm. Hafnf. finna að því, og það var að nokkru leyti í samræmi við það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að aðeins væri gert ráð fyrir, að óðalsréttarfyrirkomulagið mætti taka upp á þeim jörðum, sem minnst hvíldi á og sízt þyrftu hjálpar við, en ekki væri gert ráð fyrir því hjá þeim bændum, sem byggja á þeim jörðum, sem mikið hvíldi á og ættu þar með erfiðast uppdráttar. Þetta var nú samt að vissu leyti með ráðum gert. Meiri hl. n. leit svo á, að eitt af höfuðatriðunum í þessu óðalsréttarmáli væri að koma í veg fyrir það, að á jörðunum hvíldi meira en búreksturinn gæti borið, þvert á móti því, sem á sér stað um svo fjöldamargar jarðir. Ef inn á það væri gengið að stofna til óðalsréttarfyrirkomulags á jörðum, sem mjög mikið hvíldi á, þá gætu þær byrðar orðið bændunum svo þungbærar, að þeir fyrir þá sök kæmust í hinar mestu kröggur, og gæti það orðið til þess, að menn fengju minni trú á þessu fyrirkomulagi. Hér er því hyggilegra að stemma á að asi og búa nú þegar svo í hendurnar á þessum mönnum, að búskapur þeirra geti blessazt. Hitt er annað mál, og þar er ég meira á skoðun hv. þm. A.-Húnv., að það getur orðið nauðsynlegt áður en langt um liður að greiða eitthvað fyrir þeim, sem erfiðasta eiga afkomu á skuldum hlöðnum jörðum, en þær ráðstafanir verða að vera róttækari en þær, sem hér eru nú til umr. Má vera, að ég og hv. þm. Hafnf. ásamt fleiri mönnum taki þá höndum saman til að hjálpa þeim bændum, sem svo illa eru staddir, að þeir geta ekki komið jörðum sínum í þetta ábúðarfyrirkomulag, og gert þeim mögulegt að fá óðalsrétt á jörðum sínum.

Þá var hv. þm. að finna að því, að ekki væri loku fyrir það skotið, að menn gátu selt þann styrk, sem þeir hefðu fengið til búrekstrar á jörðum sínum. Ég held, að þetta sé ekki rétt, a. m. k. var það höfuðtilgangur frv., að þegar einhver seldi jörð, þá skyldi hann mega selja það, sem jörðin hefði batnað fyrir hans atbeina, en ekki það, sem jörðin hefði batnað af ríkisins hálfu. Annars má vera, að um þetta séu nú ekki nógu glögg ákvæði, og má alltaf ræða það í n. og hér í d.

Þá talaði hv. þm. Hafnf. um, að það væri brot á samningum milli stjórnarflokkanna að leyfa sölu á jörðum þess opinbera. En með því, sem ég hefi sagt um þann stóra eðlismun, sem ég álít vera á þessari sölu og þeirri, sem rætt var um milli stjórnarflokkanna, þá get ég ekki sagt, að svo sé, því að með því fyrirkomulagi, sem á að vera á óðalsréttinum, og með þeim takmörkunum, sem þar eru settar, sé ég ekki betur en að þar sé farið að nálgast það, sem ég álít, að eign á jörð eigi að vera, sem sé eingöngu ábúðarréttur, sem tryggi afrakstur þess fjár, sem eigandi eða ábúandi og hans skyldulið setja í jörðina.

Þá var það hv. 7. landsk., sem beindi til mín nokkrum spurningum, hvað vekti fyrir n. með því frv., sem hér liggur fyrir, hvort það væri ekki það, að tryggja, að það fé, sem er í sveitunum og myndast þar framvegis, verði þar áfram, hvort ekki vekti fyrir okkur að auka möguleikana fyrir hæfilegri fjölgun býla í landinu og heilbrigðum ættarmetnaði. Ég tók það fram þegar í framsöguræðu minni, að ég teldi höfuðkost þessa frv. einmitt þetta, sem hv. þm. var að spyrja um, að festa í sveitunum sem mest af því fé, sem þar er og þar skapast, þvert á móti því, sem hingað til hefir átt sér stað vegna sölu jarðanna. Ég get því svarað þessari spurningu játandi.

Sama er að segja um aðra spurninguna. Eins og ég sagði, þá er það fyrsta til að fjölgun býla geti átt sér stað, að búskapurinn verði arðvænlegur og eftirsóknarverður, og ég álít ákvæði þessa frv. miða að því.

Um heilbrigðan ættarmetnað vil ég segja það, að ég veit ekki, hvort ég legg eins mikið upp úr því og hann, en auðvitað hefir það verið svo hingað til og verður það ekki síður eftirleiðis með þessu fyrirkomulagi, að mönnum þykir ósjálfrátt vænt um þá jörð, þar sem forfeður þeirra hafa dregið fram lífið og þar sem þeir búast við, að afkomendur þeirra heyi sína lífsbaráttu, og það ætti að verða til að skapa meiri ánægju og meiri festu þeirra, sem í sveit búa. Ég geri ráð fyrir, að það komi að nokkru leyti af sjálfu sér, þegar sú festa er komin á í sveitum, að sama ættin situr á jörðinni mann fram af manni, að þá reyni þeir að sitja hana sem bezt, svo að hún verði að sem mestu gagni fyrir ættina og sem mestrar prýði fyrir sveitina. Ég held því, að tilgangur okkar sé sá sami í höfuðatriðunum.

Ég ætla þá, að ég þurfi ekki að svara fleiru. Út í einstakar gr. frv. mun ég ekki fara nú; til þess gefst væntanlega tími, þegar málið kemur til 2. umr., sem ég vona fastlega að verði.