04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Pálmason:

Hv. þm. Hafn. sagði, að auðsætt væri, að samkomulag væri milli Sjálfstfl. og Framsfl. í þessu máli. Þetta er rétt um nefndarmennina. Hinsvegar hefi ég enga tryggingu fyrir því, að minn flokkur fylgi frv. óskiptur í þessari mynd, né Framsfl. heldur. En við nm. munum vinna að því, að flokkarnir fylgi frv. sem minnst breyttu.

Annars hefir það komið fram, að breitt djúp er milli þeirra, sem yzt standa til hvorrar handar í máli þessu. Þannig vill hv. þm. Hafnf. og hans flokkur ekki láta ríkið selja neina jörð, sem það á nú, heldur láta það kaupa jarðir, koma öllum jörðum úr sjálfsábúð. Aftur vill t. d. hv. 6. þm. Reykv. ganga svo langt, að hið opinbera gefi ábúendum allar jarðirnar og styðji það á allan hátt, að allar jarðir verði sjálfseign. Aðrir, og þar á meðal við nm., viljum leggja áherzlu á valfrelsi manna, með því að gera leiguábúð aðgengilega og á hinn bóginn með löggjöf um óðalsrétt. Þótt við séum ekki ánægðir með frv. að öllu leyti, þá eru það frekar aukaatriði, sem við teljum betur mega fara og málið má ekki stranda á.