07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal fara nokkrum orðum um einstök atriði í þessu frv., sem ekki voru rædd við 1. umr. Gr. frá 1.—9. fjalla um jarðir, sem eru í opinberri eign, annaðhvort kirkjujarðir eða eign sjóða, sem eru almennings eign. Í 1. gr. eru ákvæði um það, að þegar þessar jarðir losni næst úr ábúð, skuli þær byggðar með erfðafestuábúð, en þó skulu undanþegnar því ákvæði jarðir, sem þegar eru ákveðnar til opinberrar notkunar, svo sem embættisbústaða svo og þær jarðir, sem Búnaðarfél. Ísl. telur líklegar til opinberra nota eða skiptingar í framtíðinni samkv. áliti viðkomandi sýslunefndar eða bæjarfélaga. — Í 2. gr. eru ákvæði um það, að afgjöld af þessum jörðum skuli aldrei vera meira en 3% af fasteignamatsverði þess, sem hið opinbera á í jörðunum, og þar með er því slegið föstu, að ekki sé gerlegt að ætla þeim, sem búa á þessu landi, hærri vaxtagreiðslu af því stofnfé, sem í jörðunum er, heldur en 3%, og eru það vitanlega lægri vextir en bændur nú almennt verða við að búa; en það er mál manna, að þeir séu of háir, enda þótt ekki hafi verið geta til af hálfu hins opinbera að færa þá vexti niður. Hinsvegar má geta þess, að 3% er í hærra lægi, miðað við það verð, sem nú er á jörðum og afurðum bænda, en það stafar af því, að fasteignamatið er of hátt á jörðunum, enda var það ákveðið nokkru áður en kreppan skall á, með hliðsjón af góðu árunum, sem þá höfðu gengið á undan. Það er vitanlegt, að ef matið hefði farið fram nokkrum árum síðar, þá hefði það orðið lægra. Má því gera ráð fyrir, að það verði lægra næst, ef engin breyting verður á verðlagi, og þannig mega ganga út frá því, að á hverjum tíma lagi matið á jörðunum sig eftir árferðinu. Finnst n. þá ekki fjarri lagi að hafa afgjaldið 3%.

Eins og hv. þm. sjá, hefir landbn. orðið sammála um að bera fram nokkrar brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 485. Ein þessara brtt. er við 2. gr., á þá leið, að aftan við gr. bætist ákvæði um það, að skylt sé að selja ábúenda jarðarhús og innstæðukúgildi. ef hann óskar að kaupa. Þetta ákvæði er í frv. í 6. gr., en við nánari athugun þótti n. það frekar eiga við í 2. gr.gr. fjallar sérstaklega um þessi atriði, og fer því betur á að flytja liðinn þangað, en fella hann aftan af 6. gr. — Um 4. gr. má geta þess, að þar er talað um, að á meðan sama ætt heldur jörðinni skuli afgjaldið ekki hækka. Það segir sig sjálft, að þegar jörð er búin að vera lengi í ábúð sömu ættar, hafa myndazt þar verðmæti, sem ættin á, en ekki jarðeigandi, og virðist því sanngjarnt, að afgjaldið hækki ekki fyrr en ábúandi af annari ætt tekur jörðina til ábúðar. — Í 5. gr. eru ákvæði um, að það hljóti og megi endurmeta jörðina, þegar hún verði fyrir varanlegum skemmdum. Okkur þótti rétt að færa ákvæðin um það, hvenær menn gætu heimtað lækkun á afgjaldinu, upp í það, að verðmæti jarðarinnar hafi rýrnað um minnst 20%. — Þá er 6. gr. Hún ræðir um það, að þegar ábúendaskipti verða milli ætta, þá skuli gera þannig upp reikninga, að öll hús skuli metin sérstaklega. Skulu úttektarmenn meta húsin og skipta þeim í tvo flokka. Í öðrum flokknum séu jarðarhús, sem undir öllum kringumstæðum teljast nauðsynleg jörðinni. Frá jarðarhúsum skal draga það af þeim, sem er í opinberri eign, en um þau hús, sem ekki geta talizt nauðsynleg, skal fara eftir samkomulagi. — N. hefir einnig flutt brtt. við þessa gr., sem kveður skýrt á um þetta. Er hún sömuleiðis á þskj. 485 (2. brtt.), sem er þannig, að síðari málsl. 2. málsgr. orðist svo: „Það, sem eftir er og leitt hefir af framkvæmdum ábúanda sjálfs, er viðtakandi skyldur að kaupa við matsverði, en hitt verður eign jarðeiganda.“ — Í 7. gr. er ákvæði um, að ábúanda sé heimilt að skipta ábýli sínu milli barna sinna, en þó því aðeins, að tryggt sé, að hvert býli geti framfleytt meðalfjölskyldu. Þetta er eitthvert þýðingarmesta ákvæði frv., því að það tryggir, að verði þessi löggjöf þess valdandi, eins og til er ætlazt, að búskapurinn batni svo, að það þyki eftirsóknarvert að fá býli, þá komi krafan um það innan frá, eða frá fjölskyldunni, sem á jörðinni býr, að skiptin fari fram. Verður þetta þá til þess, að skiptin geti farið fram nokkurnveginn sjálfkrafa. Þó að svo fari, að ekki komi krafa um skiptingu innan frá, þá getur sýslunefnd krafizt, að jörðinni verði skipt, og fjalla ákvæði 8. gr. um það. Þá er um leið tryggt, þegar slík krafa kemur fram frá hinn opinbera, að erfingjar þeirrar ættar, sem á jörðinni búa, njóti hennar. — Þá eru ákvæði 9. gr. um það, að heimilt sé ábúanda slíkrar jarðar að taka lán til húsabóta, sem þó má ekki nema meiru en 50% af fasteignamati jarðarinnar. Þar sem afnumin eru ákvæði ábúðarl. um skyldu til húsabóta, þótti rétt að heimill jarðarábúanda að taka lán með veði í jörðinni í þessu skyni. Við þessa gr. hefir n. sömuleiðis flutt brtt. Er hún um það, að á eftir orðunum „fasteignamatsverði landsins“ komi nýr málsl., svo hljóðandi: „Skulu úttektarmenn viðkomandi hrepps hafa eftirlit með því, að láninu sé varið til þeirra umbóta, sem til er ætlazt, og taka þær út að verkinu loknu.“ Er þetta ákvæði sett til öryggis því, að það lán, sem tekið verður eftir þessari heimild, gangi til þess, sem því er ætlað, en ekki til annars, en það gæti komið fyrir, ef ekkert eftirlit væri með því haft.

Þá kemur annar kafli, frá 10—23. gr. Fjallar hann um erfðafestuábúð, sem hér er nefnd óðalsréttur. á jörðum einstakra manna. Er hann að nokkru leyti svipaður þeim ákvæðum, sem eru í 1. kafla, að öðru leyti en því, að hér er um að ræða eign einstakra manna. 10. gr. ræðir um þau skilyrði, sem þarf að framfylgja, svo að hægt verði að gera jörðina að einstaklings óðalseign. — Ég skal ekki fara út í liðina hvern fyrir sig, en aðeins geta þess, að í e-lið er tekið fram, að á jörðinni megi ekki hvíla hærri veðskuldir en svo, að árlegir vextir af þeim nemi 3% af fasteignamatsverði jarðarinnar. Þetta þótti n. rétt að samræma við 1. kafla frv., því að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að bændur geti borið hærri leigu en sem svarar 3%. — Í 11. gr. er sú kvöð á þeim, sem taka við ættaróðulum, að þeir séu skyldir að borga 3% af land- og húsaverði jarðarinnar til samerfingja sinna í 1. lið, en þó eigi lengur en í 25 ár. Um þetta ákvæði er það að segja, að þeim, sem taka við ættaróðali í fyrsta skipti, sé bundinn nokkur baggi, sem hinir séu lausir við. Athugaði n. þetta, og þótti henni rétt að láta þetta standa eins og það var í frv. því, sem borið var fram af hv. 7. landsk. og meðflm. hans.

Eitt atriði er í þessum kafla, sem ekki er í hinum, um heimild til að láta ættaróðali fylgja fé, sem getur bæði verið lifandi peningur og dauðir hlutir. Okkur þótti sjálfsagt að gefa þessu heimild, ef einhver af þeim, sem breyta vildu býli sínu í ættaróðal, vildu láta fé fylgja því. Engin ástæða er til að drepa hendi við því, en hinsvegar ástæðulaust að gera ráð fyrir því í l. kafla. — Þá er í 3. kafla ný kvöð á þá, sem taka við ættaróðali, sem ekki er heldur í 1. kafla, um það, að þeim sé skylt að framfæra foreldra sína, ef með þarf. — Ég sé ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í hverja gr. Í mörgum þeirra eru ákvæði, sem leiðir af sjálfu sér, vegna þess að 2. kafli ræðir um jarðir einstakra manna, sem fjalla undir ákvæði, sem eru í 1. kafla. Í 19. gr. er shlj. ákvæði eins og í 1. kafla um heimild fyrir óðalsbændur til að skipta býlunum milli erfingja sinna. Ýmsum hefir verið illa við og ekki viljað viðurkenna þessi ákvæði um ættaróðul, meðfram vegna þess, að þeir álíta, að verið sé að skapa forréttindastétt svipað og við þekkjum frá Noregi og víðar. En hér er á margan hátt ólíku saman að jafna; Hér er m. a. gert ráð fyrir, að býlunum megi skipta milli erfingjanna í 2 eða fleiri býli. Þegar búið er að koma upp ættaróðali, þá er líklegt, að börnin séu fús á að vera þar áfram og að þrýstingurinn komi innan að frá þeim um að fá jörðina. Á þennan hátt getur þessi löggjöf orðið til þess að fjölga býlum í landinu. Þetta ákvæði er stórt og sker úr um það, að það þarf ekki að bera þessa löggjöf saman við svipaða löggjöf í öðrum löndum.

20. gr. fjallar um það, að heimilt sé óðalsbónda að taka lán með veði í óðalinu til húsabóta eða annara varanlegra umbóta á jörðinni. Lán, sem þá hvíla á jörðinni, mega þó aldrei nema hærri upphæð en 100% af fasteignamatsverði landsins, en þó ekki yfir 50% af heildarmati óðalsins. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði í 1. kafla um erfðaábúðina, þar sem segir, að afgjaldið skuli ekki vera meira en 3% af jarðarmati. Þetta á að tryggja það, að býlin séu ekki yfirhlaðin af skuldum.

23. gr. er um það, að þegar enginn réttur erfingi treystist til þess að taka við óðalinu, þá falli það til ríkissjóðs til fullrar eignar, og fer þá um ábúð þess samkv. I. kafla þessara laga.

III. kafli er um það, hvernig óðals- og ábúðarréttur erfist. Þar eru sömu ákvæði, eða eins í eðli sínu. Það segir sig sjálft, að aðalreglan á að vera sú, að hjón komi sér saman um, hvað af börnum þeirra eigi að taka við jörðinni. En ef ekki næst samkomulag um það, hvaða barn á að taka við, þá á elzta barnið að erfa réttinn, en ef það afsalar sér réttinum, þá hin börnin eftir aldri. Í hinu frv. var gert ráð fyrir, að elzti sonurinn hefði forgangsréttinn, en það þótti ekki rétt að mismuna börnunum eftir því, hvort væri karl eða kona, og hefir það orðið ofan á í þessu frv.

Landbn. hefir flutt smábrtt. við 10. gr., sem ég minntist ekki á áðan. Það er engin efnisbreyt., en hún gerir aðeins skýrari ákvæði, sem þar er. Brtt. fer í þá átt, að á eftir orðunum „jörð sína“ í 1. málsl. gr. komi: með húsum og mannvirkjum. — Það þykir rétt að taka þetta skýrt fram. Á sama þskj. er brtt., sem flutt er til þess að taka af allan vafa í 24. gr. frv. Brtt. fer í þá átt, að 1. málsgr. orðist svo: „Réttur til ábúðar á jörðum þeim, sem um ræðir í 1. kafla laga þessara, þar með talin hús og mannvirki, sem ættin á á jörðinni, ennfremur ættaróðul, erfist sem hér segir“. — Það þótti rétt að taka það fram, að það, sem ættin á á jörðinni, erfist til viðtakanda. Okkur þótti þetta ekki nægilega skýrt í frv. og því rétt að taka þetta fram.

Í IV. kafla eru ákvæði um það, hvernig menn missa ábúðar- og óðalsrétt.

Að lokum koma svo niðurlagsákvæði í V. kafla. Þeir menn, sem taka við opinberum jörðum, hafa ekki lengur þá kvöð á hendur ríkissjóði, að hann byggi yfir þá. Sú skylda fellur á þá, sem taka við jörðunum, og fellur með þessu stór kvöð af ríkissjóði. Það er ætlazt til þess, að með þeim hlunnindum, sem þeim eru gefin, séu þeir færari en áður að halda við húsum á jörðunum.

Í 29. gr. eru ákvæði um það, að l. um sölu þjóð- og kirkjujarða falli niður í því formi, sem þau vöru. Í frv. eru ákvæði um það, að því aðeins megi selja opinberar jarðir, að þær séu um leið gerðar að ættaróðali. Þar hefir verið reynt að sameina þá menn, sem annars líta misjafnlega á þetta mál, með því að halda jörðunum í einstakra manna eign, en svo eru önnur ákvæði í frv., sem fara nær skoðun þeirra, sem álíta bezt, að jarðir séu í opinberri eign. Í þessu — frv. er orðið svo skammt milli einstaklingseignar og opinberrar eignar, þar sem komizt er svo nærri því að gera leiguréttinn eins öruggan og tryggan sem eignarréttinn, og má þar með segja, að þessar 2 stefnur fallist í faðma.