07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Sigurðsson:

Út af því, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að ég hefði ljóstað því upp, að hér væri ekki um gjöf að ræða, þá vil ég segja það, að ég hygg, að hver sem væri myndi telja það gjöf, þó þeir ættu að lofa gömlum hjónum að vera.

Ég segi fyrir mig, að ég álít, að það væri gjöf, þó að viðtakandi yrði að sjá gömlum hjónum farborða í staðinn. Í sveitum er það nú svo almennt að taka við gömlum hjónum og sjá þeim farborða án endurgjalds, að menn, sem tækju við jörðum gamalla hjóna, myndu ekki telja það eftir sér. Það er þá í raun og veru alls ekki um sölu að ræða. Þó að það megi auðvitað reikna þetta til peninga, þá er hér um svo fá tilfelli að ræða, og engin líkindi til þess, að menn færi að misnota þetta, og að menn fari að láta jarðir sínar til óskyldra manna, nema með því að fleyta sér þannig fram. Ég tel þetta sjálfsagða hluti, þegar svona stendur á, og ég vænti þess, að aðrir hv. þdm. líti einnig svo á þetta.