09.11.1935
Neðri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég á hér þrjár brtt. á þskj. 510. Tvær þeirra eru næstum shlj. brtt., sem ég flutti við 2. umr., og mun ég því ekki fara út í þær nú. Hinsvegar vildi ég skýra l. brtt. nokkuð.

Í frv. er gert ráð fyrir, að eiganda ættaróðals sé heimilt að skipta óðali milli erfingja, tveggja eða fleiri, ef fullnægt er ákvæðum 10. gr., þ. e. að jörðin framfleyti meðalfjölskyldu a. m. k. Í brtt. minni er sá varnagli sleginn, að landverð hins upphaflega óðals megi eftir skiptin eigi vera minna en í upphafi. Samkv. ákvæðum að framan í frv. verður engin jörð gerð að ættaróðali, nema hún hafi jafnaðarlega verið fullnytjuð af einum búanda. Aðrar jarðir komast ekki undir lögin um ættaróðal, og því er ekki ástæða til að ætla, að hér sé verið að skapa neina nýja stétt sérréttindamanna, sem hafi meira land undir en þeir þurfa. Ég tel, að ekki sé rétt að miða stærð jarða við það, að þær framfleyti meðalfjölskyldu, því á hverju eiga þá hinir að lifa, sem hafa meira en meðalfjölskyldu fram að færa? En þegar börnin eiga sjálf að ýtast á um það, hvort jörð skuli skipt, hafa foreldrarnir erfiða aðstöðu til þess að standa gegn óeðlilegri skiptingu. Það er eðlilegt, að börnin geti orðið nokkuð kröfufrek um skiptingu, þegar aðalarfhluti þeirra er í jörð. Eftir till. minni verða börnin nokkuð á sig að leggja til þess, að skipti geti orðið. þ. e. að auka svo verðmæti óðalsins, að hægt sé að skipta. Ef foreldrarnir hafa aðeins rúmlega getað fleytt sér áður, er eigi líklegt, að skipti geti orðið. Ég álít það því heilbrigt af löggjöfinni að ýta undir börnin til að endurbæta óðalið. En eftir frv. er hægt að skipta jörð, þótt allir partar líði við það í raun og veru. Í fyrri hl. frv. hefir n. tekið ákvæði það, sem í till. minni felst, upp undir vissum kringumstæðum, til að varna því, að jarðir í erfðaábúð verði bútaðar niður nema sem svarar umbótum þeim, sem gerðar hafa verið. Ég álít, að þetta ákvæði eigi einnig að gilda um óðalsjarðir.

Um hinar brtt. mun ég ekki ræða, þar sem ég hefi skýt þær áður, og n. mun fallast á þær.