09.11.1935
Neðri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki margt að segja um brtt. þessar, því að þar eru flestar efnislitlar, og f. h. n. get ég sagt það eitt, að hún hefir um þær óbundnar hendur.

Um brtt. frá hv. 7. landsk. á þskj. 510 verð ég þó að segja það, að ég get ekki fallizt á 1. brtt., en hún gengur í þá átt, að binda frekar en gert er í frv. leyfi til skiptingar á ,jörðum og fjölga þannig býlum. Að vísu er það ekkert stefnumál fyrir mér, að hið opinbera búti allar jarðir niður í meðalbýli eða smábýli. Ég held, að það sé hagkvæmt, að stærri býli þrifist innan um hin, svo að menn geti valið milli smærri og stærri býla eftir hæfileikum, getu og upplagi. En ég álít, að ekki sé rétt að leggja stein í götu foreldra og barna, sem koma sér saman um skiptingu jarðar í samræmi við ákvæði frv.

Það er rétt hjá hv. 7. landsk., að í erfðaábúðarbálknum er sagt, að hin nýju býli megi ekki hafa minna landverð en var upphaflega, en það ákvæði gildir aðeins, er sýslunefnd eða hreppsnefnd þykir ástæða til að skipta jörð. En hér er um annað að ræða, ef ættin kemur sér saman um skiptin. Ég get því ekki greitt atkv. með þessari till. — Um 2. brtt. á þskj. 510 get ég sagt það, að n. fylgir henni. Er þar aðeins tekið skýrar fram það, sem frv. ætlast til.

Um 3. brtt. er ég í meiri vafa, en mun þó fylgja henni. Ef almennt væri heimilt að gefa jarðirnar, gæti það leitt til þess, að jarðir yrðu seldar á laun og kallaðar gjafir, til að fá peninga fyrir þær. En þessi brtt. er til að tryggja það, að bóndi, sem á enga eftirkomendur eða eftirkomendur sem vilja ekki eða geta ekki tekið við jörðinni, — megi velja sér eftirmann á óðalið.

Þá er brtt. á þskj. 505 frá hv. þm. N.-Þ., sem ekki eru efnisbreyt., heldur miða að því að fella burt orðið óðal og setja erfðaábúð o. s. frv. í staðinn. Mér finnst alveg óþarfi að fella burtu þetta gamla góða orð, en geri þetta annars ekki að ágreiningi.

Þá er brtt. frá hv. þm. A.-Sk. um að færa afgjaldið úr 3% niður í 2%. N. leggur eindregið á móti þessu. Svo framarlega sem líkur eru til, að hægt sé að reka heilbrigðan búskap, ætti bann að geta borið 3% af fasteignamatsverði. Þótt fasteignamatið nú sé ef til vill of hátt, vegna þess að það fór fram í lok góðæris, rétt áður en kreppan hófst, getur vel farið svo, að næsta fasteignamat fari fram í lok kreppunnar og verði síðar meir fulllágt. Það má ávallt búast við nokkrum öldugangi í verðlagi jarða og ekki hægt að miða prósenturnar við það á hverjum tíma. Auk þess er þeim ábúendum, er þessi lög ná til, gefin slík forréttindi, er frá liður, að ekki er ástæða til að fara það gjald, sem þeir eiga að greiða, niður fyrir það, sem sanngjarnt er. N. er á móti þessu, en að öðru leyti hefir hún óbundnar hendur um till.