20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Baldvinsson:

Mér þykir hv. 1. þm. Eyf. og frsm. meiri hl. ekki tala sérlega virðulega um þessa nýju aðalsmannastétt, og það er undarlegt, ef hann heldur, að þrengt sé að kosti þeirra. Ef hv. þm. hefir lesið frv. betur en ég, þá hlýtur hann að hafa tekið eftir því, að í 10. gr. b. og í 24. gr. 3. lið eru þeim, sem hljóta óðalsrétt, fengin aukin fríðindi. Þeir eiga ekki að erfa réttindin samkv. erfðalögunum, heldur er vikið frá þeim, þannig að foreldrar eiga að koma sér saman um. hvert af börnunum skal erfa ábúðar- eða óðalsréttinn. Hér er verið að lögleiða nýja skipun fyrir yfirstétt í sveitunum. Þegar hún er setzt á laggirnar, þá getur verið, að urðhagir menn geti fundið nafn, sem hæfir henni betur. Og svo er annað; í frv. eru engin takmörk sett fyrir því, hvað jarðeignir óðalsherra megi vera stórar, heldur er Búnaðarfél. Ísl. ætlað að kveða á um, að slíkar jarðir megi ekki vera stærri en svo, að þær hafi jafnaðarlega verið nokkurnveginn fullnytjaðar af einum ábúanda.

Þetta er svo teygjanlegt og óákveðið, hvað Búnfél. Ísl. kann að álíta, að einn eða annar óðalsherra geti nytjað stóra jörð. Og það mun fara eins og ég áður sagði, að venjulegum bændum mun ekki fært að ná eignar og óðalsréttindum á þessum jörðum, heldur fyrst og fremst þeim mönnum, sem kunna að græða í síldinni eða á öðrum spekúlationum. Þessi lög eru því sett handa þeim, og álít ég, að þau séu ekki til bóta fyrir bændur. Það verða tiltölulega fáir í sveitunum, sem geta haft not af þeim, enda hljóta þau að vekja þar ríg og meting, og verða þar af leiðandi engum til blessunar. Það mun ekki verða vel liðið í sveitunum, þegar einstakir menn koma frá öðrum atvinnuvegum með nóga peninga til þess að ná óðalsréttindum á beztu jörðunum. Auk þess má gera ráð fyrir, að eftir mannsaldur verði þeir búnir að fá finna nafn en smábændurnir á leigujörðunum.

Hv. frsm. misskildi það, sem ég sagði um skattinn; það eru ekki nafnabætur óðalsherranna, sem eru skattlagðar erlendis, heldur hin víðáttumiklu lönd þeirra. — Það er hlálegt að ætla með þessu frv. að vekja ber á landi upp þá stefnu í landskiptamálum, sem nágrannaþjóðir okkar eru að kveða niður. Í Danmörku eru óðalssetrin og hinar stærri jarðeignir teknar og bútaðar sundur í fleiri sjálfstæð býli. En hér er verið að magna þann draug, sem næstu kynslóðir þurfa svo aftur að glíma við að kveða niður.

Mér finnst sannarlega, að við höfum annað að gera, sem meiri nauðsyn er á, hér á landi, heldur en að koma upp 40—50 yfirstéttarbændum með finna nafni en aðrir hafa.