25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

169. mál, tolllög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég var sammála hv. samnm. mínum um afgreiðslu þessa máls í aðalatriðunum, því að þótt það sé auðveldara að tolla vindlingana eins og það er gert nú, þá sýnist heppilegra að haga tollinum eins og stungið er upp á í frv., þegar það á að vera útilokað, að nokkur sjái eiginhagsmuni í að fara á bak við tollinn. meðan tóbaksverzlunin er rekin á reikning ríkissjóðs. En það var ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að hér sé ekki um neina breyt. á tollupphæðinni að ræða, því að eftir þeim útreikningi, sem er í grg. frv., þá munar hér 20 þús. kr. Og þó að segja megi, að ekki muni um það í svo mikilli mjólk, þá eru samt til tekjustofnar, sem eru ekki miklu hærri en þetta, og lætur bæði ríkissjóður og skattgreiðendur sig muna um það.

Mín brtt. fer eingöngu fram á, eins og hv. frsm. gat til, að leiðrétta þetta. Því er beinlínis yfirlýst í grg. frv., að tilgangurinn sé eingöngu sá, að breyta innheimtuaðferðinni. Það er því bara til að fylgja tilgangi frv. fram, að ég hefi borið fram brtt. mína. Með því að reikna tollinn það, sem ég legg til, þá fæst nákvæmlega sama upphæð í ríkissjóð og hingað til hefir fengizt.

Eina ástæðan, sem ég gæti ímyndað mér, að borin yrði fram móti þessari brtt., væri sú, að auðveldara væri að reikna út tollinn með þeim tölum, sem eru ákveðnar í frv. sjálfu., því að þá verður tollurinn að viðbættum gengisviðauka nákvæmlega 26 kr. af kg., en ef menn heldu sig við þá upphæð, sem ég sting upp á, 20.30 kr., yrði tollurinn, að viðbættum 25% gengisviðauka. kr. 25.37. En skattheimtumenn verða að hafa það, að reikna út með hvaða upphæð sem er, og þegar allar upphæðir eru reiknaðar með vélum, þá er ekki mikil ástæða til að horfa í þesskonar hluti. Sama er að segja um marga fleiri reikninga, svo sem gengisreikninga bankanna. Þar er ekki verið að velja þær tölur, sem þægilegast er að reikna með, og svo láta menn vélarnar hafa fyrir að reikna, og þær reikna jafnt þó að tölurnar séu þybbnar fyrir á pappírnum. Ég held því, að það megi alveg samþ. brtt. mína af þeim sökum, að upphæðin sé óþægileg í meðförum, sem sé 25.37 kr., en með þeirri upphæð næst höfuðtilgangur frv., breytt innheimtuaðferð, en óbreyttur tollur af þessari vöru.