25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

169. mál, tolllög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki heldur fara út í neinar stórdeilur. Ég vildi aðeins gefa d. kost á að samþ. frv. í þeirri mynd, sem til var ætlazt, sem sé að aðeins væri breytt innheimtuaðferðinni, en ekki tollupphæðinni. En í frv. er að ræða um hækkun á tollinum, svo að það er eðlilegt, að hæstv. fjmrh. leggist á móti brtt. minni, því að fjmrh. eru ekki vanir að mæla á móti tekjuaukum.

Hæstv. ráðh. segir, að verðhækkun verði engin, þó að tollurinn hækki, því að þá verði álagningin þeim mun minni. Það kann að vera, að það verði nú framkvæmt svo, en hægt er að hækka verðið án tollhækkunar, og tollhækkun er ákaflega gott tilefni til að hækka útsöluverð.

Hæstv. ráðh. segir, að þetta sé áætlunarupphæð, og það er alveg rétt. En það er svo um allar áætlunarupphæðir, að það getur brugðið frá þeim á báða boga. Og ég hygg það sennilegt, að tóbakseinkasalan hafi hér haft vaðið fyrir neðan sig, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, og því líkur til þess, að með nákvæmlega rétt reiknaðri upphæð komi samt dálítil hækkun.

Hæstv. ráðh. segir, að það megi trúa forstöðumanni tóbakseinkasölunnar og tollstjóra, sem hafi reiknað þetta út. Við sjáum allir jafnt, hvað má trúa þeim í þessari ágizkun, og það er auðvitað trúaratriði, hvort þessi ágizkun er rétt. Hitt er ekki trúaratriði, að reikna dæmi. Og dæmið er reiknað hér, og munurinn er 20 þús. kr. Og ég er það trúaðri en hæstv. ráðh., að ég trúi ágizkun þeirra, tek síðan minn blýant og reikna, hver tollurinn þurfi að vera til að fá sömu upphæð og áður, og ber síðan fram brtt. um það.

Ég geri þetta ekki að kappsmáli, en vildi bara gefa d. tækifæri til að afgr. málið í því formi, sem til er ætlazt eftir öllum anda frv.