25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

149. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Þess er getið í nál. hvernig fjhn. lítur á frv. — Frv. er komið frá Nd. og ástæðan til þess, að það er flutt, er sú, að komið er í óefni með gamlar stimpilsektir, svo óhjákvæmilegt þykir að gefa ríkisstj. heimild til þess að gefa eftir af þeim.

Það er svo, að fjöldi manna víða um land hefir vanrækt að láta stimpla ýmiskonar skjöl, sem ekki eru í fullu gildi nema þau fáist stimpluð. Þetta horfir því til stórra vandræða, nema þessu sé kippt í lag. En fresturinn var útrunninn 1931. Þó þykir fjhn. Ed. óvarlegt að hafa heimildina ótímabundna um að gefa eftir. Er hætt við, að ýmsir láti þá stimplun fremur dragast og skáki í því skjóli að fá eftirgjöf á sektinni, ef í nauðir reki.

N. virðast stimpilsektirnar nokkuð háar, og sýnist athugunarvert, hvort ekki muni borga sig að lækka þar, og vill beina því til hæstv. ríkisstj. og fjmrh. til frekari athugunar. Ef sektir væru lækkaðar, ættu að vera meiri líkur til, að þær yrðu greiddar. Nú getur stimpilgjaldið fimmfaldazt, og sé um stórar fjárhæðir að ræða, getur þetta orðið stórfé, sem skiptir hundruðum eða jafnvel þúsundum, ef þær liggja árum saman og safna á sig sektum. Það er líka e. t. v. of mikið sagt að segja, að allar stimpilsektir hafi af vanrækslu. Margir vita ekki um, hver skjöl þarf að stimpla, og sízt, að þeir hugsi út í, að slíkt varði sektum. En svo þegar til þessara skjala þarf að taka, getur það valdið mestu vandræðum, ef þau eru ekki í gildi, t. d. afsal ekki stimplað eða annað slíkt. N. vill þó ekki fallast á að gefa ótakmarkaða heimild til eftirgjafa á sektunum, heldur vill hún binda hana við 1. júlí 1937, en að allar eldri sektir séu gefnar eftir eða felldar niður á þeim tíma.

N. ætlast til, að hæstv. fjmrh. athugi, hvort ekki muni hægt að breyta þessu gjaldi svo fátækum mönnum verði fremur kleift að greiða það. — — N. leggur svo til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að heimildin gildi aðeins í 11/2 ár, eða til l. júlí 1937.