25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

149. mál, stimpilgjald

Jón Auðunn Jónsson:

Ég er því samþykkur að ríkisstj. sé gefin heimild til þess að undanfella eða lækka sektir, þegar sýnilegt er, að ástæðan er ekki sú, að komast undan stimpilgjaldi. Það er oft svo, að menn þekkja ekki þessi l., og er því aðeins fáfræði um að kenna. En þar sem undanbrögð hafa verið af ásettu ráði, á ekki að gefa sektirnar eftir. Það er í flestum tilfellum alveg ljóst, hvort um er að kenna undanbrögðum eða vanrækslu.

Ég held, að tímatakmörkun við 1937 hafi litla þýðingu, en verði aðeins til þess, að endurnýja þurfi l., því ég álít, að slík heimild þurfi að vera í l., vegna vanþekkingar manna á gildandi l. — Ég mun því greiða frv. atkv.