23.11.1935
Efri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Ingvar Pálmason:

Ég hefi ekki getað fylgt samnm. mínum í þessu máli. Ég sé enga nauðsyn til að veita undanþágu sem þessa, en hinsvegar er slíkt miklum vandkvæðum bundið. Frsm. sagði eins og er, að þessir menn væru launaðir af fiskeigendum. Hinsvegar ráða fiskeigendur engu um skipun þeirra né launakjör, sem eru mjög sómasamleg, því er gengið á rétt fiskeigenda, ef nú á að veita undanþágu, sem miðar að því, að þeir fái ekki eins fullkomna starfskrafta og ella fyrir það fé, sem þeir leggja fram. Hér er því beinlínis verið að íþyngja útgerðinni, og það er ekki forsvaranlegt af Alþingi, að líta ekki á hag beggja aðilja áður en það tekur úrslitaákvörðun í þessu máli.

Ég vil endurtaka það, að ég sé enga ástæðu til þessa, þegar þess er gætt, hve launakjör fiskimatsmannanna eru sæmileg. En ég vil jafnframt benda á það, að frá sjónarmiði þeirra, sem nota eiga störfin, er slík undanþága miklum annmörkum bundin. Það hefir lengi verið almennt álitið, að menn væru ekki verkfærir eftir 60 ára aldur. Þessir menn eiga aftur á móti samkv. þessu frv. að vera verkfærir eftir 65 ára aldur og taka hæsta kaup.

Hv. frsm. sagði, að leikni í starfinu bætti það upp, þótt líkamsþrek þessara manna væri eitthvað farið að bila. En þó er ómótmælanlegt, að eitt aðalskilyrðið til að rækja starfið vel er að hafa óbilaða sjón, en það mun mjög sjaldgæft, þegar menn eru orðnir 65 ára. Ég hefi sjálfur fengizt við fiskimat, og finn ég, að sjón mín er svo farin að bila, að ég get ekki lengur leyst slíkt starf sæmilega af hendi, enda þótt ég geti lesið og skrifað alveg óhindrað. Auk þess vita allir, sem skynbragð bera á þessi mál, að til þess að verkið gangi svo fljótt, að það verði ekki óhæfilega dýrt, þarf alveg óskert líkamsfjör. Til að meta eitt skippund með t. d. 300 fiskum þarf mörg hundruð handtök. Það er engan veginn sama, hvort 3 eða 6 skippund eru metin á klst. 65 ára maður afkastar ekki eins miklu eins og maður, sem er upp á sitt hið bezta. Starfið er þreytandi, og það þarf hrausta menn til að standa við það í 10 klst. eða lengur.

Ég er ekki að væna fiskimatsmennina um hlutdrægni, er þeir eiga að skera úr um það, hvort undanþága skuli veitt eða ekki. En ég býst við, að þeim myndi hætta til að líta fyrst og fremst á matið sjálft, en síður á hitt, þótt það gengi seinna en ella. En slíkt yrði auðvitað til að íþyngja útgerðinni, og er því nokkuð hjáróma við aðrar raddir um nærgætni við þennan atvinnuveg.

Auk þess má á það líta, að einhvern tíma falla þessir æfðu menn frá, og ungir menn verða að taka við hvort sem er, enda mun í hverju sjávarþorpi vera völ á ungum mönnum, sem nægilega leikni hafa í starfinu. Vegna mannanna sjálfra er ekki ástæða til undanþágunnar, þar sem þeir eru launaðir flestum öðrum betur. Breytingin miðar því aðeins að því að gera matið dýrara, en felur enga tryggingu í sér fyrir því, að það verði betur af hendi leyst.