23.11.1935
Efri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Ingvar Pálmason:

Ég hefi nú aðeins rétt til aths., enda skal ég ekki vera margorður.

Það er sérstaklega eitt atriði í ræðu hv. frsm., sem ég vildi athuga. Ég gat sem sé ekki skilið orð hans öðruvísi en svo, að hann þekkti ekki annað mat heldur en það, sem fer fram um leið og fiskinum er skipað út. Úti um land, þar sem matið er nú kannske ófullkomnara, er fiskurinn metinn strax og gefið er upp, hvað mikið er til af hverri tegund af fiski. Svo líða kannske margir mánuðir og þá selst 1/4 hluti af fiskinum, og þá verður að meta þann hluta. En það er ekki gert um leið og skipið kemur, heldur nokkuð löngu áður. Skipið kemur svo kannske ekki eða ekkert verður úr því, að fiskurinn sé tekinn. Líður svo kannske einn mánuður enn, og á þá loksins þetta „partí“ að fara, sem verður að metast einu sinni enn, og er því þá pakkað inn áður en skipið kemur. Fiskurinn er sem sagt margmetinn áður en hann kemst um borð.

En hvað því viðvíkur, að það sé til undanþáguheimild í l., en hún gildi bara ekki um þessa menn, þá verð ég að segja það, að annaðhvort gilda l. um aldurshámark embættis- og starfsmanna um þessa menn eða ekki, og undanþáguheimildin hlýtur að ná til allra, sem undir þessi l. falla. Svo af þeim ástæðum er engin ástæða til þess að samþ. frv.