08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Frsm. (Emil Jónsson):

Af því að nokkuð langt er liðið frá 1. umr. langar mig til að rifja nokkuð upp aðalatriði frv. og þær orsakir, sem til þess liggja, að það er fram komið. — Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé veitt heimild til að taka eignarnámi nokkrar landspildur, til þess að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi og til að tryggja bænum jarðhita á einum stað, sem er svo nærri, að hægt á að vera að nota hann til virkjunar.

Ég þarf ekki nú að fara nákvæmlega út í eðli málsins eða einstök atriði þess, því það var gert við 1. umr., og mun ég eingöngu halda mig við brtt., sem n. nálega einróma mælir með, að verði samþ. Einn nm., hv. þm. A.-Húnv., hefir að vísu skrifað undir með fyrirvara, en að öðru leyti er n. mjög á einu máli. Ég skal taka það fram, að ég hefði mjög óskað eftir því, að n. hefði séð sér fært að ganga lengra um eignarnámsheimildina heldur en hún hefir gert, en ég hefi viljað fá samkomulag um málið og geri því ekki ágreining um þau atriði.

Nefndin leggur til, að 1. tölul. 1. gr. falli niður, og kemur það til af því, að nú þegar hefir náðst samkomulag við eiganda Jófríðarstaða um kaup á jörðinni. Katólska kirkjan, eða einhver stofnun hennar, átti þessa jörð og hefir selt bænum hana.

Þá leggur n. til, að 2. tölul. sömu gr. standi óbreyttur, en sá tölul. er um að taka afnotarétt af öllu óræktuðu landi jarðarinnar Áss í Garðahreppi. Ás er eign ríkisins og ábúandinn hefir lífstíðarábúð á jörðinni, og það hefir komið til mála, að hann keypti hana, en Hafnarfjarðarkaupstaður var þá spurður, hvort hann vildi kaupa jörðina, og gaf bærinn það svar, að hann vildi kaupa, og hefir sölunni því verið frestað. Land þetta er að mestu melar og holt, en þó nokkrar spildur ræktanlegar.

Líka mælir n. með því, að 3. liður verði óbreyttur, en hann er um heimild til að taka eignarnámi þann hlutann af óræktuðu landi jarðarinnar Hvaleyri í Hafnarfirði, sem ekki er þegar eign Hafnarfjarðarkaupstaðar. Þessi jörð er að hálfu leyti eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, en að hálfu leyti Flensborgarskóla, og er sá hlutinn leigður til 50 ára og þarf því að fá heimild þessa. Þetta land er mjög líkt því landi, sem tilheyrir jörðinni Ási og ég hefi þegar lýst.

Önnur brtt. n. er við 4. tölul. 1. gr., og er það höfuðbreyt. Leggur n. til, að sá tölul. verði orðaður á annan veg en 5 frv., og það svo, að breyt. verður á í verulegum atriðum. Í frv. er gert ráð fyrir, að kaupstaðurinn fái allt það land, sem liggur inn að hreppsmörkum Garðahrepps og niður að sjó, að undanskildum a. m. k. 20 ha. af ræktuðu eða ræktanlegu landi fyrir hvert býli, sem þar er nú í ábúð; en n. gerir ráð fyrir, að þetta breytist þannig, að landsvæðið takmarkist að austanverðu af veginum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, að norðan af Arnarneslæk og Arnarnesvogi og að vestan af beinni línu úr suðvesturhorni Arnarnesvogar yfir vesturhorn Engidals og niður í bæjarlandið. Þetta er mjög lítill hluti af því landi, sem áður var talað um í 4. lið, og mikið af því hraun og holt og aðeins um 6—7 ha. af því ræktanlegt land. Allt hitt, sem eftir er skilið, er betur fallið til ræktunar, en n. sá sér ekki fært að taka það, þar eð allmiklum hluta þess er þegar ráðstafað til bænda í Garðahreppi.

5. liðinn var n. sammála um að láta standa. Það er að segja um jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í Grindavík. Í fyrstu var dálítill vafi á um þetta í n. og nm. ekki á einu máli um það, hvort rétt væri að fara út í þetta. En þegar það upplýstist, að mikill hluti af réttindum til þessara jarða væri í höndum útlendinga, sem enginn veit, hvar eða hverjir eru, þá þótti sýnt, að ekki væri hægt að fá á þeim sæmilega eignarheimild nema með eignarnámi á jörðunum. Á svipaðan hætt hefir Reykjavíkurbær áður farið að með landspildur suður við Skerjafjörð, vegna þess að þar voru ókunnir eigendur að landinu.

Aðrar breyt. eru ekki miklar; þó er á 2. gr. gerð sú breyt., að ríkisstj. er veitt heimild til að gera hvort heldur sem hún vill, að selja kaupstaðnum þau lönd, sem hún tekur eignarnámi, eða leigja honum þau, en í frv. var ákveðið, að ríkisstj. skyldi selja bænum löndin. Höfuðbreyt. á þessari gr. er þó sú, að sýslunefnd Gullbringusýslu er gert kleift að fá leyfi til þess að nota þann hluta af Krýsuvíkurlandi, sem oftast hefir verið notaður leyfislaust. Eins og frá frv. var gengið frá minni hálfu var þetta ekki öðrum ætlað en Hafnarfjarðarkaupstað, en n. hefir fallizt á að heimila sýslunni afnot af landi jarðarinnar til beitar, eftir því sem aðstæður leyfa.

Um skaðabætur eru sömu ákvæði og í frv. Við 3. gr. er smávægileg orðabreyt., að í stað „eignast“ komi „eignast eða fá á leigu“, og leiðir þetta að sjálfsögðu af breyt. 2. gr.

Við 4. gr. er líka breyt. á tölul. 1. gr., sem leiðir af því, að tölul. 1 fellur burt.

Með þessum breyt. er gengið svo langt í þá átt að verða við óskum hreppsnefndar Garðahrepps og sýslunefndar Gullbringusýslu, að ég tel ekki, að þær hafi undan nokkru að kvarta. Frá Garðahreppi er ekki tekið af auðræktuðu landi nema um 6 ha., en hann heldur tugum ha. af auðræktuðu landi, og ég býst við, að á meðan hreppsbúar hafa það, þá fari þeir ekki út í þá sálma að rækta grýtt holt og mela. Og að hinu leytinu — um kröfur sýslunefndar til beitilands — þá er hér gert ráð fyrir, að sýslan fái land til beitar fyrir fé sitt, og í mótsetningu þess, sem verið hefir, að verða alltaf að leita til eigenda landsins um leyfi fyrir beitinni — eða nota það leyfislaust —, þá skilst mér, að með frv. sé réttur þeirra betur tryggður en verið hefir. Eins og nú er getur eigandinn alltaf — hver sem hann er — lokað landinu, en með þessum breyt. er það ekki hægt. Ég vonast því til, þegar landbn. hefir komið sér saman um þessar till., þá samþ. hið háa Alþingi þetta hagsmunamál Hafnarfjarðfarkaupstaðar.