12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Ólafur Thors:

Þessu máli var frestað fyrir fáum dögum vegna tilmæla frá mér. Ég hefi að sönnu ekki getað aflað mér allra upplýsinga, sem ég óskaði um afstöðu hlutaðeigandi hreppa og sýslunefnda til málsins, en ég verð þó að viðurkenna, að þær upplýsingar, sem ég hefi fengið, benda til þess, að þeir aðiljar, sem ég ber helzt fyrir brjósti, vilja eftir atvikum sætta sig við málið eins og það liggur fyrir samkv. brtt. hv. landbn. Ég ætla því ekki á þessu stigi málsins að bera fram frekari ósk um frest, en ég mun geyma mér rétt til þess að gera nánari grein fyrir afstöðu þessara aðilja, sem ég nefndi. Ég veit að vísu ekki, hvernig heilsu hv. þm. Barð. og sýslumanns Gullbringu- og Kjósarsýslu líður, en ég vona, að hann sé á það góðum batavegi, að hann geti mætt hér í d. áður en langt um líður, og mun ég þá reyna að fá upplýsingar hjá honum fyrir 3. umr.