30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Landbn. hefir haft þetta mál til athugunar og mælt með því, að frv. verði samþ.

Þetta mál hefir legið fyrir Alþ. nokkrum sinnum áður og miklu stórtækar farið í málið þá en nú. Það, sem aðallega á nú að leggja undir Hafnarfjarðarkaupstað samkv. frv., eru lönd frá Jófríðarstöðum, Ási og Hvaleyri, jörðum, sem liggja næst bænum að sunnanverðu. Í þeim er mikið óræktað land, sem rækta mætti, ef Hafnarfjarðarkaupstaður fengi aðgang að því. Sama gildir um landsvæði, sem frv. tekur til ég en í Garðahreppi, sem liggur á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það er ætlazt til þess, að Hafnarfjarðarkaupstaður fái af því allmikið land til úthlutunar handa bæjarbúum til ræktunar.

Nú stendur svo á þarna, að land það, sem næst liggur bænum, er svo að segja óræktanlegt, hraun að mestu. Er Hafnarfjarðarkaupstað því meiri þörf á svona ráðstöfunum heldur en mörgum kaupstöðum öðrum, sem hafa út frá sér land, sem má þó rækta. En þetta hraun við Hafnarfjarðarkaupstað má heita, að sé ógerningur að rækta.

Ég sé ekki, að mikill ágreiningur hafi orðið um, þetta mál í hv. Nd. Ég sé þó, að inn í frv. hefir komizt till. frá hv. þm. G.-K., sjálfsagt að fyrirlagi umbjóðenda hans í kjördæminu. Sú till. hefir verið samþ. sem breyt. á frv. Ég þykist vita, að samkomulag hafi verið um þetta í hv. Nd.

Ég mæli með því, að frv. þetta verði samþ. Einn hv. nm. hefir minnzt á, að það væru kannske einhverjar breyt., sem hann vildi gera á frv., en till. um slíkt liggur ekki fyrir. Að svo komnu máli er n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt.