13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Guðbrandur Ísberg:

Eins og hv. frsm. landbn. tók fram, þá hefi ég nokkra sérstöðu í þessu máli, enda þótt ég færi ekki að kljúfa nefndina. Ég er samþykkur þeirri hugmynd frv., að rétt sé að safna búreikningum og vinna úr þeim, en ég hefði viljað láta þetta mál bera að á annan hátt, sem sé þann, að Búnaðarfél. Ísl. hefði haft forgöngu um þessi efni, og að hlífzt hefði verið við að leita til Alþingis um styrk. Þetta er sannarlega mál bændanna, sem bera hefði átt fram á búnaðarþingi, og Búnaðarfél. Ísl. að beita sér svo fyrir því á eftir. Að bera málið fram á þann veg, sem nú er gert, virðist benda í þá átt, að ekki sé nægilegur áhugi fyrir því hjá bændunum og Búnaðarfél., og er því næst manni að halda, að vafasamt sé um árangur. Meðan svona er ástatt um málið, tel ég ekki tímabært að fara að setja lög til þess að knýja það fram. Ég teldi réttara að láta málið bíða búnaðarþings og láta það taka það upp. Lagasetningar eru að sjálfsögðu þarfar, þar sem þeirra er brýn þörf, en án þarfa tel ég ekki rétt að setja lög.