13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. Ak. á því, að Búnfél. Ísl. hefir látið dálítið til sín taka um þetta mál, og það er langt síðan farið var að ræða málið í félaginu, þó að mestur áhugi hafi verið fyrir því nú síðustu árin, þar sem t. d. Guðmundi Jónssyni kennara á Hvanneyri hefir verið greiddur dálítill styrkur til þess að safna búreikningum og leiðbeina um þá. Málið er því óneitanlega komið nokkuð inn á þá braut, sem hv. þm. taldi þá heppilegustu. Það er því aðeins „smagsag“, hvort byrja á að lögfesta þetta nú eða að ári. Ég fyrir mitt leyti tel tímabært að gera það nú þegar. Það er rétt hjá hv. 7. landsk., að nú er verið að undirbúa einfaldari búreikningsform en þau, sem notuð hafa verið. Stjórn Búnaðarfél. fól Guðmundi Jónssyni kennara á Hvanneyri það verk. Að sjálfsögðu kostar það eitthvað, en ég hygg, að kostnaðurinn verði aldrei yfir 3000 kr., en verði sú raunin á, að hann fari fram úr þeirri upphæð, þá greiðir Búnaðarfél. það, sem það kann að verða.