30.11.1935
Efri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og tók það þar nokkrum breyt. frá því, er það kom þar fyrst fyrir til umr. Landbn. þessarar d. hefir athugað það nokkuð, og eins og stendur á nál. á þskj. 644, leggur hún einróma til, að frv. verði samþ.

Mér skilst, að einkum sé það tvennt, sem ætlað er að vinna með þessari löggjöf. Í fyrsta lagi það, að þessi búreikningaskrifstofa eigi að vera bændum til leiðbeiningar um að gera búreikninga, með því að láta þá hafa fyrirmyndir fyrir búreikningum og veita þeim tilsögn í því efni. Í öðru lagi eigi hún að safna ýmsum skýrslum viðvíkjandi rekstri landbúnaðarins og vinna úr þeim.

Ég verð nú að gera þá játningu hvað sjálfan mig snertir, að ég geri ekki svo ýkjamikið úr fyrra atriðinu. Ég held, að bændur almennt hafi það töluvert á tilfinningunni án nákvæmra búreikninga, hvaða rekstur borgar sig fyrir þá og hver ekki, og að búreikningar mundu ekki koma að eins miklu gagni fyrir hvern einstakan bónda eins og haldið hefir verið fram. En á hinn bóginn má gera töluvert úr síðara atriðinu. Það er náttúrlega nauðsynlegt, bæði fyrir landsstjórn og þing, að vita sem mest um það, hvaða greinar landbúnaðarins borga sig bezt, og ýmislegt viðvíkjandi því, sem þessi skrifstofa ætti að geta gefið góðar upplýsingar um. því að það er næsta áríðandi, að löggjöf og fjárveitingavaldið hagi stuðningi sínum til landbúnaðarins skynsamlega, þ. e. styðji þær greinar hans sérstaklega, sem mestar líkur eru til, að muni eiga framtíð, og reyni að beina honum inn á nýjar brautir, eftir því sem bezt hentar. Verk slíkrar stofnunar gæti oft verið nauðsynlegur grundvöllur undir ráðstafanir löggjafar og fjárveitingavalds viðvíkjandi framlögum og öðru í þágu landbúnaðarins.

Landbn. hefir ekki borið fram neinar brtt. við frv., og sé ég því ekki, ástæðu til að fara um það fleiri orðum.