23.12.1935
Sameinað þing: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

Þinglausnir

forseti (JBald):

Í sambandi við fundalok Alþingis að þessu sinni vil ég minnast á það stórfellda manntjón, sem varð í ofsaveðrinu 14. og 15. desember síðastl. Hefir Slysavarnafélag Íslands skýrt mér frá því, að 20 manns hafi drukknað og 5 orðið úti, og hafa þannig farizt voveiflega 25 manns á einum sólarhring. Vil ég biðja hv. alþingismenn að rísa úr sætum sínum og votta minningu hinna látnu virðingu sína og votta aðstandendum þeirra samúð Alþingis.

[Allir þm. risu úr sætum.]

Alþingi það, er nú hefir lokið störfum sínum, hefir staðið í samtals 124 daga. Fundum þess var frestað 4. apríl síðastl. og hófust að nýju 10. okt. Þetta er því hið lengsta þing, sem háð hefir verið, enda hefir það afgr. mörg og merkileg mál. Má þar nefna l. um alþýðutryggingar, sem munu, einkum þegar frá líður, gera öruggari afkomu allrar alþýðu og jafnframt verða þjóðhagslegur gróði.

Þá má vænta þess, að l. um nýbýli og samvinnubyggðir skapi tímamót að því er snertir flutning fólks úr sveitum til sjávarhéraða. Er hér í fyrsta sinn gerð víðtæk löggjöf, sem beinlínis miðar að því að stöðva flutning fólks úr sveitum, sem orsakað hefir mikla truflun í atvinnulífi þjóðarinnar á undanförnum árum.

Þá hafa verið samþ. á þessu Alþingi l. um breyting á æðsta dómstól landsins, hæstarétti. er m. a. fela í sér þá breytingu að fjölga dómurum, þótt eigi sé það enn komið til framkvæmda.

Þótt skoðanir manna séu skiptar um þessi mál og önnur fleiri, þá er hver skyldur að trúa því, að hver fulltrúi þjóðarinnar á Alþingi ætli þjóð sinni hið bezta með till. sínum. Og allir óska þess, að ályktanir Alþingis megi verða þjóðinni í heild sinni til gagns og farsældar.

Öllum alþm. er það ljóst, að útlitið framundan er ekki glæsilegt, sérstaklega að því er tekur til viðskipta vorra við aðrar þjóðir. Sumar viðskiptaþjóðir vorar eiga við margvíslega örðugleika að etja, og kemur það harðar niður á oss Íslendingum en öðrum, vegna þess hve fábreytileg er framleiðsla vor, þótt viðleitni sé hafin til þess að bæta úr því.

En úr þessum örðugleikum, sem að höndum ber, verðum vér sjálfir að bæta, og Alþ. það, er nú lýkur störfum, hefir í afgreiðslu fjárl. sýnt mikla viðleitni til þess að mæta þeim.

Þá vil ég óska öllum alþm. gleðilegra hátíða og þeim alþm., sem heima eiga utan Reykjavíkur, góðrar heimferðar og farsællar heimkomu.

Stóð þá upp forsætisráðherra, Hermann Jónasson, og las upp umboð konungs sér til handa til þess að segja Alþingi slitið.

Síðan mælti