25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

53. mál, ríkisborgararéttur

Emil Jónsson:

Þessi maður, Emil Vilhelm Randrup, sem ég hefi með brtt. á þskj. 472 gert till. um, að bætt verði við hina, sem í frv. eru taldir, og veittur ríkisborgararéttur, hefir dvalið hér á landi hátt á þriðja tug ára og lengst af þeim tíma, eða yfir 20 ár, í Hafnarfirði. Hann hefir stundað þar ýmsa vinnu, sem hann hefir tekið sér fyrir hendur, með mjög miklum dugnaði og áunnið sér traust manna. Vil ég þess vegna eindregið leyfa mér að óska þess, að honum verði bætt inn á frv. og veittur ríkisborgararéttur.