25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Flm. (Guðbrandur Ísberg) [óyfirl.]:

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er borið fram eftir ósk nálega allra manna í Blönduóskauptúni, er atkvæðisrétt hafa. Gildir það um alla vestan árinnar og einnig flesta að austan. Ég veit ekki, hvort allir hv. þm. hafa komið til Blönduóss, en öllum mun þeim vera kunnugt, að Blönduóshöfn er mjög erfið. Fyrir fáum árum var hún ekki annað en ós árinnar, og varð að sæta sjávarföllum. Þegar svo brúin kom á Blöndu, fór byggðin að færast austur fyrir ána. Er það vegna þess, að þar er á einum stað hugsanlegt að reisa bryggju, sem bátar geta athafnað sig við. Þessi vöxtur Blönduóskauptúns austur fyrir ána er því eðlilegur, þar sem þar er betri lending og bryggja, og verzlunin hefir að mestu flutzt þangað. Er nú svo komið, að menn sækja mikla vinnu austur fyrir ána, og Blönduóshreppur hefir misst sinn aðalgjaldstofn, þar sem verzlanirnar eru. En það er ekki aðeins þetta, sem veldur því, að þessi ósk er fram komin, heldur eiga þessir 2 kauptúnshlutar mörg sameiginleg mál, sem fráleitt er að þurfa að sækja undir sveitarstjórnir beggja hreppa, og vil ég t. d. benda á bæði fátækramál og fræðslumál.

Engihlíðarhreppur tekur öll útsvör austan Blöndu, og því eiga þeir, sem þar búa, engan rétt á að sækja barnaskóla vestur yfir ána og er þar þó gott skólahús —, heldur verður að fara fleiri km. fram í Engihlíðarhrepp. Einnig þurfa þeir að sækja kirkju að Höskuldsstöðum, sem er um 12 km. — Þá situr yfirsetukona austan við ána, en hinir þurfa að sækja hana um 14 km. langan veg. Það hefir verið reynt að koma á heilbrigðissamþykkt fyrir allt kauptúnið, en ekki verið hægt vegna mótstöðu hreppsnefndarinnar í Engihlíðarhreppi. Ýmislegt fleira mætti nefna, sem ég hirði ekki um að telja upp nú, sem allt hnígur í sömu átt. Og allir heilskyggnir menn, sem ekki eru á neinn hátt háðir áliti þeirra manna, sem hagsmuna hafa þarna að gæta, hljóta að viðurkenna, að það beri að sameina þessa kauptúnshluta í einn hrepp, og það er það, sem farið er fram á hér.

Hvað Engihlíðarhrepp snertir vil ég taka það fram, að þó að ekkert liggi fyrir enn frá þeim hreppi um afstöðu hans til málsins, af því að hann hefir ekki fengizt til að gefa skriflegt álit, þá er það vitað, að sá hreppur er á móti sameining kauptúnsins. Það er eðlilegt, vegna þess að hingað til hefir hreppurinn haft meiri tekjur en útgjöld af þessum kauptúnshluta.

Annars er það augljóst öllum mönnum, að ólíklegt er mjög, að núv. skipting kauptúnsins verði látin gilda til langframa. Það er nokkurn veginn gefið, að fólksaukningin á Blönduósi heldur áfram að auka byggðina fyrir austan ána og norðan. Þar verður byggt í kringum verzlanirnar og uppskipunarstæðið. Og þá fylgir því vitanlega framfærsluþungi, sem Engihlíðarhreppur hefir ekki enn haft verulega af að segja. En hin sameiginlegu mál kauptúnsins krefjast þess, að það verði sameinað eins og hér er farið fram á. Það getur ekki verið nema tímaspursmál, hvenær það verður gert. Að því hlýtur að reka vegna þess, að engin rök mæla með því, að þessi öfuguggaháttur, sem skipting kauptúnsins er, haldist áfram.

Ég vil svo mælast til þess, að frv. verði, að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til allshn., og vænti þess, að hún taki málinu vel.