25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er ekki í fyrsta skiptið nú, að svona mál eru hér á ferðinni á Alþ., þar sem annaðhvort kaupstaður eða kauptún eru að seilast inn á hagsmunasvið sveitanna. Það hefir verið mikill styr um slíkar gripdeildir Reykjavíkurbæjar á vettvangi nærliggjandi sveita. Og nú á að halda áfram baráttunni og láta kauptún fá að seilast inn á hagsmunasvið sveitar, til þess að reyta af henni þær spjarir, sem helzt gátu til skjóls orðið. Ég vil mælast til þess, að hv. allshn., sem á að taka málið til meðferðar, athugi gaumgæfilega rök þau, sem hér eru talin liggja fyrir þessu máli, því að mér sýnist þau ekki vera svo veigamikil, a. m. k. sum þeirra, að ástæða sé til þess þeirra vegna að framselja þannig frumburðarrétt Engihlíðarhrepps til Blönduóshrepps, eins og farið er fram á með frv. Vitanlega er ástæðan til þess, að þetta mál er hér fram komið, sá öfundarandi, sem skín út úr orðalagi fylgiskjalsins með frv. út af því, hvað Engihlíðarhreppur hafi grætt á því, að kauptúnið byggðist svo utan Blöndu sem raun er á orðin, nefnilega í Engihlíðarhreppí. Vitanlega er þetta eina ástæðan fyrir því, að frv. þetta er hér fram komið. Og það verður að metast, hvort þessi græðgi Blönduósbúa í að ásælast hagsmuni Engihlíðarhrepps sé á rökum byggð eða ekki.

Það nær ekki nokkurri átt að telja það svo mjög nauðsynlegt, að báðir kauptúnshlutarnir noti t. d. sömu kirkju og sama kirkjugarð. Það er nú einu sinni svo, að sóknir á landi hér eru ekki að neinu leyti bundnar við hreppatakmörk, heldur hafa þær yfirleitt allt önnur takmörk. Svo að ef þetta væri ástæðan fyrir því að sameina kauptúnið, að hafa þarna sameiginlega kirkju og kirkjugarð, þá væri ekkert einfaldara til þess að bæta úr þessu en að útfæra Blönduóssókn yfir þetta svæði, sem í frv. er lagt til, að sameinað verði Blönduóshreppi. Það þarf alls ekki að færa til hreppatakmörkin fyrir því. Enda yrðu þá einkennileg hreppatakmörk í Húnavatnssýslu, ef ætti að laga þau eftir kirkjusóknum.

Um þær ákúrur, sem færðar eru í fskj. frv. á hendur Engihlíðarhreppi, fyrir fyrirkomulag á fræðslumálum hreppsins, vil ég segja það, að ég geri ekki svo mikið úr þeim. Ég veit ekki, á hve miklum rökum þær eru reistar. Hygg ég, að barnafræðsla Engihlíðarhrepps sé fullkomlega sambærileg við þá miklu menningu og menntun, sem risið hefir upp af barnaskóla Blönduóshrepps. Ég vænti, að Blönduóshreppsbúar standi ekki svo mörgum tröppum ofar hinum í menningarlegu tilliti, að ástæða sé þess vegna til að fara að hnýta sérstaklega í Engihlíðarhrepp í því sambandi.

Að það þurfi að sameina kauptúnið vegnu logreglumála — hv. þm. Ak. hefir kannske ástæðu til að fullyrða það. En ekki hefi ég orðið var við nauðsyn þess, og hefi ég þó átt dvöl í þeim hluta kauptúnsins, sem er norðan við ána. Ég hefi ekki orðið var við, að svo mjög örðugt sé að koma þar málum fyrir, að Blönduóshreppur þurfi endilega þess vegna að seilast inn á Engihlíðarhrepp til hagsbóta fyrir sig, til þess að lögreglumálin í kauptúninu utan við ána komist í viðunandi horf.

Þá er rafveitumálið þarna nefnt sem rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að sameina kauptúnið, til þess að fullt réttlæti fáist í þeim efnum. Ég veit nú ekki annað en að kaupfélag Húnvetninga, sem á aðsetur sitt fyrir norðan ána, hafi lagt fram 1/3 — einn þriðja — hluta af öllum kostnaði, sem til þeirrar framkvæmdar var fram lagður, eða nákvæmlega jafnt og Blönduóshreppur allur lagði fram til rafveitunnar, svo að það stendur ekki upp á hlut þessa kauptúnshluta, sem er fyrir norðan ána, sem er þó talsvert miklu minni en Blönduóshreppur sjálfur. Einn þriðja hluta þessa kostnaðar hefir sýslan lagt fram, og er það framlag ekki fremur frá Blönduóshreppi en Engihlíðarhreppi. Nei, — það stendur ekki upp á þennan hluta kauptúnsins, sem er fyrir norðan ána, þegar um stærstu velferðarmál kauptúnsins er að ræða. Það má segja t. d. um bryggjugerðir á Blönduósi, að það er ekki svo lítið fé, sem kaupfélag Húnvetninga hefir lagt í bryggju. En Blönduóshreppur, — hvað hefir hann lagt í þá bryggju fram yfir aðra hreppa í sýslunni? Ekki nokkurn hlut. Í bryggjumálum hafa Blönduóshreppsbúar verið svo óskynsamir og ógætnir, að þeir hafa varið tugum þús. í bryggju, sem er verðugur minnisvarði um heimsku þeirra og fljótfærni. Nei, það er ekki von, að þeir Blönduósbúar og þeir, sem eiga heima fyrir utan ána, og þeir, sem þar eiga hagsmuna að gæta, vilji leggja sig undir vald þeirra, sem ekki hafa farið betur með fjármuni sína og sýslunnar en svo, að þeir hafa fleygt 60—70 þús. kr. í bryggju, sem aldrei er notuð nokkurn skapaðan hlut og sennilega er ónýt orðin. A. m. k. held ég, að Blönduósingar séu alveg hættir að hugsa sér að lengja hana lengra vestur í flóann.

Ég þarf ekki að tala um þetta langt mál. Það er búið heima í héraði að deila mikið um þetta. Blönduósingar sunnan við ána hafa frá fyrstu tíð, eftir að byggðin hjá þeim varð sérstakur hreppur, reynt að ná þessum skika frá Engihlíðarhreppi. En því hefir verið mótmælt og það hefir ekki fengið neinn byr í sýslunni, svo að ég álít það vera að beita harðræði og rangindum gegn því sveitarfélagi, sem hér á hlut að máli, Engihlíðarhreppi, að fara að taka af því þá aðstöðu, sem því hefir skapazt þarna í skjóli kaupfélagsstarfseminnar í sýslunni. Ég vil segja, að þetta frv. sé árás á starfsemi kaupfélagsskaparins í Austur-Húnavatnssýslu. Það situr sannarlega ekki vel á hv. þm. A.-Húnv. að vera annar í röð um að kasta þessum steini á samvinnustarfsemina í sýslunni. Hann, sem ætti að vera skjól og skjöldur sinna héraðsbúa í þessum málum eins og öðrum framfaramálum, þótt honum þyki kannske ekki eins mikil skylda á sér hvíla nú eins og áður til þess að bera skjöld fyrir þennan félagsskap. Ég segi það fyrir mig að ég varð ekkert hissa, þótt 1. flm. frv. (GÍ) gerðist flm. þessa máls á þingi. Ekki heldur, þótt hv. þm. Hafnf. gerðist það. En mér brá, þegar ég sá, að hv. þm. A.- Húnv. vildi leggja inn á þessa braut. Og mér krossbrá, þegar ég sá, að hv. 2. þm. N.-M. hafði höggið í þann sama knérunn.

Ég mun láta þetta nægja að sinni. Ég vænti þess, að ef málið kemst til n., þá fái það þar hægan og rólegan svefn og fái þannig að hvíla a. m. k. fram yfir þetta þing og fleiri næstkomandi þing, ef það verður borið fram.